Trjátegund mánaðarins

Garðahlynur (Acer pseudoplatanus)

Garðahlynur er stórvaxið lauftré. Náttúrulegt útbreiðslusvæði hans er um svo til alla Evrópu en þar að auki hefur hann verið fluttur og gróðursettur víða um heim. Náttúruleg heimkynni tegundarinnar eru í fjalllendi Evrópu frá Spáni og austur í Kákasusfjöll. Garðahlynur hefur breiðst út norður eftir Evrópu allt til Tromsö í Noregi. Þá þrífst tegundin allvel á Hjaltlandseyjum og í Færeyjum. Útbreiðslugeta garðahlyns er mikil enda framleiðir hann mikið af fræi og þrífst vel í skugga á unga aldri.

 

Garðahlynur er einstofna tré með breiða krónu. Hann ætti að geta náð að minnsta kosti 15 metra hæð hér á landi og verður líklega hærri. Garðahlynur þarf um frjósaman jarðveg, skjól í æsku og langt sumar. Vaxtarhraði getur verið mikill en haustkal í æsku dregur úr nettóvexti. Garðahlynur þolir mengun, salt og vind  þegar hann eldist en ungplöntur eru viðkvæmar. Tegundin hefur að mestu verið laus við sjúkdóma og önnur vanþrif hérlendis. Best er að rækta garðahlyn á sunnanverðu landinu en hann þrífst einnig á góðum stöðum í öðrum landshlutum.

 

Króna garðahlynsins er yfirleitt regnhlífalöguð hér á landi. Börkurinn er grár og sléttur en verður hrufóttur með árunum og þykir mikið augnayndi. Fræ garðahlyns eru tvær hnotur með samvöxnum vængjum sem snúast svipað og þyrluspaðar þegar fræin falla til jarðar. Í miklum vindi geta fræin ferðast nokkur hundruð metra frá móðurtrénu.

Garðahlynur er líklega það langlífa eðallauftré sem kemst næst því að vera nothæft í skógrækt á Íslandi. Reynslan hefur sýnt að garðahlyn er aðallega hætt við haustkali á fyrstu 10-20 árunum. Eftir það hefur hann vaxið áfallalítið. Til marks um hve vel tegundin þrífst hér á landi, má benda á að við góðar aðstæður sáir hann sér út. Ungar trjáplöntur vaxa upp af fræi eldri trjáa, til dæmis í Fossvogskirkjugarði.

 

Hlynur hefur mikið gildi í ræktun í görðum og á opnum svæðum. Viðurinn er ljós  og meðal annars notaður í parket, húsgögn og hljóðfærasmíð eins og fiðlur, enda leiðir hann hljóð óvenju vel. Síróp er gert úr vökva hlynsins og er það töluverður iðnaður í Norður-Ameríku. Algengast er reyndar að tappa vökva af sykurhlyn (Acer saccharum). Hér á landi hafa verið gerðar tilraunir með framleiðslu síróps af hlyn. Enn um sinn mun þó vera nærtækara að framleiða birkisíróp.

 

Hvergi á landinu er garðahlynurinn jafn algengur og í Reykjavík. Þekktasta tréð er ráðhúshlynurinn á horni Suðurgötu og Vonarstrætis, sem var gróðursettur fullveldisárið 1918. Ráðhúshlynurinn var útnefndur Tré ársins 1994. Við íbúðarhús Þorvaldar Thoroddsen á Laufásvegi 5 er annar hlynur, nokkru eldri. Sá var gróðursettur árið 1888 og er meðal  elstu trjáa borgarinnar. Þá eru mjög fallegir hlynir við Mímisveg, Guðrúnargötu, Bjarnarstíg og Rafstöðvarveg, svo fáeinir staðir séu nefndir.

Ráðhúshlynurinn við Suðurgötu í Reykjavík. Mynd: Berserkur, Wikimedia Commons.

Þessir stóru reykvísku hlynir eru þó rétt að slíta barnskónum miðað við ættingja sunnar í álfunni. Við góð skilyrði á meginlandi Evrópu, nær garðahlunur um 500 ára aldri. Sverasti stofn sem vitað er um, er í þýsku Ölpunum í um 1.000 metra hæð yfir sjó. Ummál hans er 8,70 metrar.

 

Garðahlynur er greinilega verður þess að verða ræktaður áfram. Tegundin nýtur sín almennt vel  á opnum svæðum og verður garðahlynur væntanlega notaður í almenningsgörðum, sem götutré og í skjólbelti líkt og víða erlendis. Ánægjulegt væri ef kvæmi finnast sem eru betur aðlöguð okkar mislynda veðurfari og kala minna.