Sögudagatal

Furulús – skaðvaldurinn mikli

Skógarfura myndar mikla skóga á Norðurlöndunum og víðar. Miklar vonir voru bundnar við tegundina hér á landi, enda bæði vindþolin og harðger. Fræ voru flutt til Íslands fljótlega eftir aldamótin 1900 og eftir síðari heimsstyrjöldina var skógarfura ræktuð í stórum stíl upp af fræi frá Norður-Noregi.

Mikið var gróðursett af skógarfuru, meðal annars í Heiðmörk. Fyrstu átta árin eftir friðun Heiðmerkur, voru um 267 þúsund skógarfurur gróðursettar þar, eða ríflega þriðja hver trjáplanta.

Sá galli er þó á gjöf Njarðar að ákveðin lúsategund getur reynst skógarfurunni erfið. Talið er að furulús hafi borist til Íslands einhvern tíma fyrir 1940. Um 1954 var farið að bera á miklum skemmdum af völdum þessa skaðvaldar.

Til að bjarga trjánum var reynt að úða þau með nikótínvökva. Þá voru nýjar tegundir bjöllutegundir voru fluttar til landsins í þeirri von að þær myndu éta lýsnar og halda þeim í skefjum. En allt kom fyrir ekki. Skógarfururnar, sem plantað hafði verið hundruðum þúsunda saman, drápust undan ágangi lúsarinnar. Er á leið var því hætt að nota skógarfuru í skógrækt á Íslandi.

Furudauðinn var mikið áfall fyrir íslenska skógrækt. Mörg tré drápust og með þeim þær miklu vonir sem höfðu verið bundnar við skógarfuruna.

Ekki drápust þó allar skógarfurur sem gróðursettar höfðu verið hér á landi. Sumar lifðu af og nú telja vísindamenn ýmislegt benda til að furulúsarfaraldurinn hafi „orðið til þess að efla mjög viðnámsþrótt íslenskrar skógarfuru gegn lúsinni“, eins og fjallað var um nýlega á vef Skógræktarinnar.

 

Þessi umfjöllun er hluti af afmælisdagatali að tilefni þess að 70 ár eru frá opnun Heiðmerkur. Hægt er að fylgjast með afmælisdagatalinu á Instagram og Facebooksíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur.