Sögudagatal

Fuglalíf í vaxandi skógi

Uppgræðsla og skógrækt í Heiðmörk hefur getið af sér sterkt og fjölbreytt vistkerfi. Gróðursælt og skjólgott svæðið laðar ekki bara að sér manneskjur því í Heiðmörk er auðugt fuglalíf.

Í Heiðmörk er mólendi, hraun, votlendi, stórt stöðuvatn og auðvitað skógar. Fjölbreytileiki lífríkisins er í samræmi við það. Í Heiðmörk eru margar sjaldgæfar fuglategundir og tegundir sem eru á válista, svo sem brandugla, gargönd og himbrimi. Einnig hefur sést til fjölda gesta – allt frá innlendum tegundum á borð við haförn og skeiðönd til erlendra flækinga, til að mynda gráhegra og trjásvölu.

Suma fuglanna er erfitt að koma auga á. Til dæmis glókoll, minnsta fugl Evrópu, sem sést á myndinni hér að ofan, sem Hafsteinn Björgvinsson tók í Heiðmörk. Glókollur er nýbúi á Íslandi og verpir í Heiðmörk. Glókollur lifir einkum á sitkalús og tilkoma hans á Íslandi því nátengd vexti greniskóga. Aðrir fuglar eru meira áberandi, til að mynda himbrimi sem siglir tignarlega um Elliðavatn á sumrin. Enn aðrir gera sér fögur hreiður í almannaleið, eins og flórgoðinn. Undanfarin ár hefur flórgoðapar gert sér flothreiður í vík nokkurrri í Heiðmörk, í skjóli nokkurra trjágreina sem fuglavinir hafa komið fyrir úti í vatninu. Tegundir á borð við rjúpu og skógarþröst njóta einnig góðs af hinu vaxandi skóglendi.

Gráhegri. Gráhegrar hafa oft vetursetu á vatnasvæðum Heiðmerkur. Þeir eru flækingar hér á landi. Gráhegrar sækjast eftir síli og fiski í tjörnum og vötnum Heiðmerkur. Gráhegrar koma hingað líklegast frá Evrópu. (Úr skýrslu árlegri Veitna um fugla- og dýralíf í Heiðmörk.) Mynd: Hafsteinn Björgvinsson.

Fjölbreyttast er fuglalífið í votlendi, en þéttleikinn er mestur í barrskógi og lúpínu. Skógurinn í Heiðmörk er í vexti og fuglalífið að breytast með. Fuglategundum sem lifa í skóglendi hefur fjölgað á kostnað mófugla.

Rannsókn Jóhanns Óla Hilmarssonar á fuglalífi í Heiðmörk, árið 2009, leiddi í ljós að þéttleiki fugla var mestur í barrskógi og lúpínu. Algengustu varpfuglarnir voru hrossagaukur, þúfutittlingur, skógarþröstur og auðnutittlingur. Alls verptu þá 2.600 pör þessara tegunda. Næstum helmingur voru skógarþrestir.

Nýjustu skýrslu Veitna um fuglategundir í Heiðmörk má nálgast hér. Rannsókn Jóhanns Óla Hilmarssonar, sem birt var 2010, er aðgengileg hér.

Vetrartittlingur sást í Heiðmörk 28. nóvember. Fuglinn hefur aðeins einu sinni áður sést á Íslandi svo vitað sé – í Kvískerjum árið 1955. Heimkynni vetrartittlings eru í Kanada afar sjaldgæft að til hans sjáist í Evrópu. Fuglinn hefur líklega komið til Íslands með djúpri lægð sem gekk yfir landið tveimur dögum fyrr. Mynd: Hafsteinn Björgvinsson.

Þessi umfjöllun er hluti af afmælisdagatali að tilefni þess að 70 ár eru frá opnun Heiðmerkur. Hægt er að fylgjast með afmælisdagatalinu á Instagram og Facebooksíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur.