Uppgræðsla og skógrækt í Heiðmörk hefur getið af sér sterkt og fjölbreytt vistkerfi. Gróðursælt og skjólgott svæðið laðar ekki bara að sér manneskjur því í Heiðmörk er auðugt fuglalíf.
Í Heiðmörk er mólendi, hraun, votlendi, stórt stöðuvatn og auðvitað skógar. Fjölbreytileiki lífríkisins er í samræmi við það. Í Heiðmörk eru margar sjaldgæfar fuglategundir og tegundir sem eru á válista, svo sem brandugla, gargönd og himbrimi. Einnig hefur sést til fjölda gesta – allt frá innlendum tegundum á borð við haförn og skeiðönd til erlendra flækinga, til að mynda gráhegra og trjásvölu.
Suma fuglanna er erfitt að koma auga á. Til dæmis glókoll, minnsta fugl Evrópu, sem sést á myndinni hér að ofan, sem Hafsteinn Björgvinsson tók í Heiðmörk. Glókollur er nýbúi á Íslandi og verpir í Heiðmörk. Glókollur lifir einkum á sitkalús og tilkoma hans á Íslandi því nátengd vexti greniskóga. Aðrir fuglar eru meira áberandi, til að mynda himbrimi sem siglir tignarlega um Elliðavatn á sumrin. Enn aðrir gera sér fögur hreiður í almannaleið, eins og flórgoðinn. Undanfarin ár hefur flórgoðapar gert sér flothreiður í vík nokkurrri í Heiðmörk, í skjóli nokkurra trjágreina sem fuglavinir hafa komið fyrir úti í vatninu. Tegundir á borð við rjúpu og skógarþröst njóta einnig góðs af hinu vaxandi skóglendi.
Fjölbreyttast er fuglalífið í votlendi, en þéttleikinn er mestur í barrskógi og lúpínu. Skógurinn í Heiðmörk er í vexti og fuglalífið að breytast með. Fuglategundum sem lifa í skóglendi hefur fjölgað á kostnað mófugla.
Rannsókn Jóhanns Óla Hilmarssonar á fuglalífi í Heiðmörk, árið 2009, leiddi í ljós að þéttleiki fugla var mestur í barrskógi og lúpínu. Algengustu varpfuglarnir voru hrossagaukur, þúfutittlingur, skógarþröstur og auðnutittlingur. Alls verptu þá 2.600 pör þessara tegunda. Næstum helmingur voru skógarþrestir.
Nýjustu skýrslu Veitna um fuglategundir í Heiðmörk má nálgast hér. Rannsókn Jóhanns Óla Hilmarssonar, sem birt var 2010, er aðgengileg hér.
Þessi umfjöllun er hluti af afmælisdagatali að tilefni þess að 70 ár eru frá opnun Heiðmerkur. Hægt er að fylgjast með afmælisdagatalinu á Instagram og Facebooksíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur.