Fréttir

Framlög til félagsins geta verið frádráttarbær

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur nú verið skráð á almannaheillaskrá. Gjafir og framlög til félagsins, frá einstaklingum og lögaðilum, geta nú verið frádráttarbær frá skatti.

Á almannaheillaskrá eru óhagnaðardrifiin félög sem að verulegu leyti byggja „á vinnu sjálfboðaliða og með þjóðfélagslegan tilgang og samfélagsleg markmið  að leiðarljósi“ eins og segir á vef Skattsins. 

Lögaðilar, svo sem fyrirtæki og fólk sem hefur tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, geta dregið frá skattskyldum tekjum sínum allt að 1,5% og látið renna til almannaheillafélaga. Gjafir og framlög sem eiga að stuðla að kolefnisjöfnun, svo sem fjárframlög til skógræktar, eru einnig frádráttarbær.

Einstaklingar geta líka dregið frá skattskyldum tekjum sínum, samkvæmt lögum um tekjuskatt. Með einföldun má segja að frádrátturinn megi nema frá tíu þúsund krónum að lágmarki og allt að 350 þúsund krónum. Viðtakandi þarf að vera skráður í almannaheillaskrá hjá Skattinum, líkt og Skógræktarfélag Reykjavíkur er nú. 

Ýmis skilyrði þarf að uppfylla til að gjafir og framlög til félagsins séu frádráttarbær. Til dæmis að gefin sé út kvittun með nafni, kennitölu og fjárhæð framlags. Reglur um almannaheillaskrá og frádrátt einstaklinga og rekstraraðila má finna á vefsíðu Skattsins.  Félagið hvetur félagsmenn og velunnara til að kynna sér reglurnar og, eigi þeir kost á, láta félagið njóta góðs af.