Fréttir

Fræsjóðir — fjársjóðir

Þrátt fyrir heldur kuldalegt sumar á suðvesturhorninu, hefur það varla farið fram hjá neinum hvað tré og runnar hafa staðið í miklum blóma, þökk sé blíðviðri sumarsins 2023. Nú er blómasumarið 2024 að hausti komið og fræþroski langt kominn. Og þá er um að gera að nýta tækifærið, safna fræi bestu trjánna og gróðursetja fyrir næstu kynslóð.

Fræið er auðvitað misgott eftir því hvort móðurtréð hefur eftirsóknarverða eiginleika. Það getur til dæmis borgað sig að tína birkifræ af beinvöxnu tré en ekki kræklóttu kjarri. Og svo eru tegundir sem hafa marga eftirsóknarverða eiginleika en fræin liggja ekki endilega á lausu.

Kúrileyjalerki, ættað frá Kyrrahafsströnd Rússlands, var gróðursett víða um land á árunum 1951-1960. Það hefur dafnað vel og trén beinvaxin og þróttmikil. Náskyld tegund var svo ræktuð upp af fræi og gróðursett á árunum níunda áratugnum, en stóð sjaldnast undir væntingum.

Nýlega uppgötvuðust nokkur lerkitré í Heiðmörk, við Hjallabraut, sem eru trúlega kúrileyjalerki. Þau hafa verið gróðursett fyrir rúmum 60 árum en legið í þagnargildi þar til nú. Nú í haust munu starfsmenn félagsins freista þess að safna fræi og vonandi nýtist það til að fjölga enn þessum öflugu trjám. Einnig verður safnað fræi af sitkagreni sem hefur dafnað vel í Heiðmörk og mögulega fleiri tegundum.

Fræ á grein af Kúrileyjalerki. Mynd: Sævar Hreiðarsson.
Fær Kúrileyjalerkis. Og eldspýtustokkur til samanburðar.

Í haust voru felld sitkagrenitré undan háspennulínum í Vífilstaðahlíð og var upplagt að safna könglum af þeim. Í Vífilstaðahlíð eru tré ræktuð af fræi af sitkagreni frá Cordova og Hómer og sitkabastarði frá Seward og Lawing. Safnaðist um 60 kíló af könglum söfnuðust af trjánum á þessu svæði. Einnig stendur til að safna fræi af sitkagreni-kvæminu Moose Pass sem var gróðursett 1949.

60 ára sitkagrenitré voru í haust felld undir Hnoðraholtslínu í Vífilstaðahlíð. Mikið af könglum voru á trjánum. Starfsmenn félagsins söfnuðu þeim til að ná fræjum.
Gott fræár!