Á döfinni, Fréttir

Fræðsluganga um Kálfamóa á alþjóðlegum degi skóga

Skógur og heilsa er yfirskrift alþjóðadags skóga 2023. Í tilefni dagsins bíður Skógræktarfélag Reykjavíkur áhugasömum að taka þátt í fræðslugöngu um Kálfamóa við Keldur í Grafarvogi þriðjudaginn 21. mars kl. 18-19 (hópurinn hittist á bílastæðinu við aðalinngang sjá staðsetningu hér). Verið öll velkomin!

Gangan er örstutt og þægileg en tilgangurinn er að kynna gróðurvinina í Kálfamóa þar sem Jóhann Pálsson fyrrverandi garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar stundaði skógrækt frá unga aldri. Jóhann gróðursetti fyrstu trén vorið 1947 en hann hafði, aðeins 15 ára notað orlofsfé sitt til að kaupa þrjár sitkagreniplöntur. Í gegnum tíðina bætti hann við mjög mörgum tegundum bæði trjáa, runna og annarra plantna svo úr varð ótrúlega fjölskrúðugt svæði (lesa má um ræktunarstarfið hér). Jóhann lést 3. mars síðst liðinn og því sértsök ástæða til að heiðra minningu hans.

Kálfamóti er einstakt gróðurlendi sem varð til á löngum tíma vegna framsýni eins manns. Nú er verið að undirbúa íbúabyggð í landi Keldna og er það ánægjuefni að við fyrirhugaða uppbyggingu er lögð áhersla á að nýta og taka mið af náttúrugæðum svæðisins. Mikil auðlind er fólgin í Kálfamóa fyrir íbúa komandi hverfis enda eru jákvæð áhrif grænna svæða á lýðheilsu ótvíræð. Svæðið í Kálfamóa er 3,5 hektarar en til samburðar er Klambratún 10 hektarar. Hér er um að ræða einstakt tækifæri til að flétta gróður sem er til staðar inn í íbúðabyggð.

Gangan um Kálfamóa er stutt og þægileg en fræðslan er í höndum Samsonar Harðarsonar landslagsarkitekts, Hörpu Þorsteinsdóttur verkefnastjóra í lýðheilsu hjá Reykjavíkurborg og þeirra Aðalsteins Sigurgeirssonar og Þorsteins Tómassonar frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

Það eru Sameinuðu þjóðirnar sem útnefna 21. mars sem alþjóðadag skóga. Yfirskriftin er ólík á milli ára en hún tekur að þessu sinni mið af 3. heimsmarkmiðinu „Heilsa og vellíðan„. Nánar má fræðast um heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróunn hér.