Fréttir

Fjörugar umræður á vel sóttum aðalfundi

Aðalfundur Skógræktarfélags Reykjavíkur var haldinn í gærkvöld í sal Garðyrkjufélagsins. Fundurinn var vel sóttur og sköpuðust fjörugar umræður um kolefnisbindingu, birkikynbætur og aðgengi að Heiðmörk.

Jóhannes Benediktsson, formaður félagsins, setti fundinn klukkan átta. Áslaug Helgadóttir var valin fundarstjóri en Þorsteinn Tómasson fundarritari. Jóhannes, Aðalsteinn Sigurgeirsson varaformaður og Björn Thors endurnýjuðu umboð sitt í stjórn og varastjórn. Brynhildur Davíðsdóttir óskaði eftir því að víkja úr stjórn og voru henni þökkuð góð störf í þágu félagsins. Í sæti hennar var kosin Valgerður Hrund Skúladóttir.

 

Varað við verra aðgengi að Heiðmörk

Í lok fundar kvaddi stjórnarmaðurinn Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sér hljóðs og lýsti áhyggjum af versnandi aðgengi að Heiðmörk. Unnið er að tvöföldun Suðurlandsvegar og stendur til að breyta tengingu hans við Heiðmerkurveg – helstu aðkomuleið í friðlandið frá Reykjavík. Tveir valkostir eru kynntir í frummatsskýrslu og felur annar í sér að akstursleiðin úr Heiðmörk til Reykjavíkur lengist um þrjá kílómetra. Þessi lenging felur í sér verra aðgengi fyrir gesti friðlandsins og viðbragðsaðila, auk þess hún stuðlar að meiri mengun.

 

Íslenskt birki í útrás

Þorsteinn Tómasson ritari stjórnar sagði frá ferð sinni til Svíþjóðar, þar sem hann hélt erindi um kynbætur á birki síðustu áratugi og íslenska yrkið Heklu, sem hann hefur ræktað. Rannsóknum Þorsteins hefur verið sýndur mikill áhugi bæði í Svíþjóð og Finnlandi. Íslenska birkiyrkið Hekla er nú komið í sölu í báðum þessum miklu skógarlöndum.

 

Líflegar umræður um kolefnisbindingu

Að loknum aðalfundarstörfum og kaffiveitingum flutti Gústaf Jarl Viðarsson, starfsmaður félagsins, erindi um rannsókn sína á kolefnisbindingu í Heiðmörk. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að kolefnisbinding í jarðvegi sé um 80% kolefnis í gróðurlendi hér á landi, á meðan evrópsk módel miða við að hún sé aðeins um 50%. Talsverðar umræður sköpuðust um rannsóknarniðurstöðurnar í kjölfar erindinsins og mögulegar skýringar á því hve stór hluti kolefnis bindst í jarðvegi hér á landi.

 

Ársskýrsla Skógræktarfélags Reykjavíkur 2022

Fundarmenn fengu í sínar hendur ársskýrsla Skógræktarfélags Reykjavíkur 2021. Skýrslan er aðgengileg á  heidmork.is.

Í skýrslunni er fjallað um starf félagsins – meðal annars umsjónarsvæði, gróðursetningar, innviði, samstarfsverkefni og fleira. Þá er að finna tölulegar upplýsingar s.s. stærð skógræktarsvæða, fjölda ársverka, tækjakost, þátttöku í fræðslustarfi og margt fleira. Á síðasta ári voru t.d. 148.400 trjáplöntur gróðursettar á vegum félagsins.

Fundargestir á aðalfundi Skógræktarfélags Reykjavíkur 2022.

Gústaf Jarl flytur erindi sitt. Mynd: Auður Kjartansdóttir.