Fréttir

Fjölmörg áhugaverð erindi á fagráðstefnu skógræktar

Um 150 sóttu í fagráðstefnu skógræktar í vikunni, í Haukadal. Þeirra á meðal flestir starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur.

 

Gústaf Jarl Viðarsson, einn af starfsmönnum félagsins, flutti erindi um rannsókn sína á kolefnisforða og kolefnisbindingu í Heiðmörk. Rannsóknin er lokaverkefni í M.Sc. námi við skógfræðideild Landbúnaðarháskóla Íslands.

 

Reynsla af verkefninu getur hjálpað til við mat á bindingu einstakra skógareigenda. Þá eru niðurstöðurnar um margt áhugaverðar. Þannig mældist kolefnisbinding í jarðvegi skóganna sem rannsakaðir voru, álíka mikil og binding í lífmassa skóganna. Þetta er ákveðin vísbending um að íslenskir skógar bindi mögulega meira kolefni en talið hefur verið. Frekari rannsókna er þó þörf. Niðurstöður úr rannsókn Gústafs verða birtar síðar á þessu ári.

 

Fjallað var um fjölbreytt efni á ráðstefnunni, svo sem spár um útbreiðslu skóglendis á Íslandi; náttúrulega óvini meindýra á trjám; áhrif skjóls á nærviðri og plöntuvöxt; sveppa- og örverulíf í jarðvegi nýrra skóga; og aukin viðargæði í skógrækt og úrvinnslu skógarafurða.

 

Nánar má lesa um ráðstefnuna á vef Skógræktarinnar.

 

Í Laugarvatnsskógi. Mynd: Auður Kjartansdóttir.