Fréttir

Fjöldi hópa tók þátt í ræktun Loftslagsskóganna

Margir hópar hafa tekið þátt í skógrækt í Loftslagsskógum Reykjavíkur í Úlfarsfelli í vor og sumar.
Börn úr Selásskóla og Norðlingaskóla gróðursettu hátt í 1.000 birkiplöntur í vor. Viðburðurinn var tilraunadagur vegna samstarfsverkefnis Skógræktarfélags Reykjavíkur og Miðstöðvar útilífs og útináms þar sem stefnt er að því að öll börn í Reykjavík gróðursetji einu sinni á skólagöngu sinni.
Þann 25. júní var svo haldinn opinn gróðursetningardagur. Þátttakendur gróðursettu 1.645 plöntur af ilmbjörk, sitkavíði, blæelri, stafafuru og jörfavíði. Þjóðfræðingar gróðursettu einnig snemmsumars í tengslum við þjóðfræðiráðstefnu.
Þrír hópar bandarískra highschool-nemenda tóku þátt í gróðursetningum. Bandarísku nemendurnir voru hér í tíu daga náttúruskoðunarferð á vegum Go-Putney, sem er bandarísk ferðaskrifstofa. Ferðunum var stýrt af náttúrufræðikennurum og hjá okkur fengu þau fræðslu um skóga á Íslandi, Skógræktarfélag Reykjavíkur, gróðursetningar, loftlagsskóga, lúpínu og fleira.
Gústaf Jarl, starfsmaður félagsins, fer yfir helstu atriðin við gróðursetningar.

Það er þjóðþrifaverk að græða upp melinn.

Bandarískir highschool-nemendur tóku þátt í skógræktarstarfinu í sumar.