Fólk sem vill halda 17. júní hátíðlegan með því að eiga ánægjulega stund í Heiðmörk, hefur út ýmsu að velja. Farið verður í skipulagða skógargöngu um morguninn. Eftir hádegi verður sumargleði SVFR og Veiðikortsins og svo er hægt að fara í skemmtilegan ratleik. Á laugardaginn verður síðan Esjuhlaupið í tíunda sinn.
Klukkan 10 að morgni 17. júní verður lagt í fyrstu skógargöngu sumarsins. Göngurnar eru samstarfsverkefnið Skógræktarfélags Reykjavíkur og Ferðafélags Íslands og verða þriðja fimmtudag hvers mánaðar í júní, júlí, ágúst og september. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands og Auður Kjartansdótttir framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur leiða för. Lagt verður upp frá Elliðavatnsbænum.
Frá klukkan 13 til 15 verður Sumargleði SVFR og Veiðikortsins við Elliðavatnsbæinn. Veiðifólki og fjölskyldum þeirra verður boðið að veiða frítt í boði Veiðifélags Elliðavatns. Grillaðar pylsur og drykkir verða í boði auk þess sem SVFR verður með kastkennslu og leiðbeiningar.
Þá má vekja athygli á skemmtilegum ratleik í Heiðmörk. Björk Sigurðardóttir, kennari við Ísaksskóla, er höfundur leiksins, sem haldið er úti af Ferðafélagi Íslands. Ratleikurinn reynir á ratvísi, hugmyndaflug, skynjun og styrk. Hann hentar fólki á öllum aldri. Upplýsingar um ratleikinn má finna hér.
Á laugardaginn verður svo Esjuhlaupið (Mt. Esja Ulta) í tíunda sinn. Boðið er upp á mismunandi hlaupalengdir og erfiðleikastig: Tveggja kílómetra Ævintýrahlaup fyrir börn í Esjuskógi; Steinninn, sem er þriggja kílómetra langt hlaup með um 600 metra hækkun; Mt. Esja Ultra II sem er 14 kílómetra langt hlaup með 1.200 metra hækkun; og Mt. Esja Marathon – 45 kílómetra langt hlaup með 3.200 metra hækkun.
Í ár liggur maraþonleiðin meðal annars um nýja tengileið í gegnum skóginn, milli Mógilsár og Kollafjarðarár, niður Nípuna, sem er hjólaleið, og upp stikaða leið í átt að Gunnlaugsskarði. Undanfarin ár hefur Skógræktarfélag Reykjavíkur lagt mikla vinnu í að stækka útivistarsvæðin í Esjuhlíðum, bæta aðstöðu og dreifa álagi, í samstarfi við mismunandi útivistarhópa. Gaman er fylgjast með góðri nýtingu útivistarsvæðanna.
Hlaupið verður laugardaginn 19. júní og eru nánari upplýsingar á heimasíðu Esjuhlaupsins
og á Hlaup.is.