Fréttir

Fiðraður vetrarflakkari í Heiðmörk

Meðal margra vetrargesta í Heiðmörk er dílaskarfur. Dílaskarfur er sjófugl en á veturna leggst hann í flakk og heldur þá meðal annars til við ár og vötn. Nú í janúar hefur dílaskarfur nokkur gert sig heimakominn á brúnni á Heiðmerkurvegi milli Helluvatns og Elliðavatns.

Dílaskarfar hafa sést öðru hvoru á veturna í Heiðmörk, undanfarin ár. Fram til ársins 2010 var nokkuð sjaldgæft að til fuglsins sæist í Heiðmörk, en hefur orðið algengara síðan. Mest var um þá 2017, þegar  24 dílaskarfar sáust í lok sársins. Í fyrra sáust þrír fuglar í janúar.

Þetta má lesa úr skýrslu Hafsteins Bjögvinssonar, sem hefur vaktað fuglalíf í Heiðmörk fyrir Veitur og skrifað um það skýrslur í tuttugu og fimm ár samfleytt. Nýjasta skýrslan – Fuglar og önnur dýr á verndarsvæðum vatnsbóla Reykjavíkur“ – kom út 5. janúar. Hægt er að nálgast hana á vef Veitna.

Dílaskarfar stunda vetrarflakk og heimsækja þá gjarna stór vötn. Í skýrslu Hafsteins segir að ungir dílaskarfar eltist við fiska í vötnunum í Heiðmörk, aðallega snemma vors.

Dílaskarfurinn er sjófugl (af ætt pelíkanfugla) og verpir aðallega á skerjum, að því er fram kemur á Fuglavefnum. Erlendis verpir tegundin í klettum, á flötum árbökkum og jafnvel í trjám inni í landi, nærri vötnum þar sem mikið er um fisk.

Dílaskarfur á Elliðavatni. Mynd: Auður Kjartansdóttir.