Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur haft umsjón með Esjuhlíðum frá árinu 2000 þegar félagið tók við jörðunum Mógilsá og Kollafirði. Þar hafði Skógrækt ríkisins og fleiri ræktað skóg um árabil og kom því í hlut Skógræktarfélags Reykjavíkur að hirða um þann skóg sem fyrir var auk þess að planta í nýja reiti og hafa landnemar meðal annars komið að því. Stærstur hluti gamla skógarins við rætur Esju tilheyrir Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá og er hann að mestu undanskilinn leigusamningi við Skógræktarfélag Reykjavíkur. Svæðið var skipulagt samkvæmt deiliskipulagi á vegum Landmótunar. Jafnframt hefur félagið unnið að uppbyggingu stígakerfis og aðstöðu til útivistar enda Esjuhlíðar fjölsótt svæði og mikil þörf á frekari uppbyggingu og þjónustu við almenning.