Tvö ný skilti hafa verið sett upp í Esjuhlíðum. Annað sýnir útsýni frá Fláum í Esjuhlíðum. Hitt er við upphaf gönguleiðar, nálægt bílastæðinu við Mógilsá og Esjugerði. Á skiltinu eru upplýsingar og kort yfir Esjuhlíðar og göngu- og hjólaleiðir. Gönguleiðir eru margar og fjölbreyttar í Esjuhlíðum. Bæði beint upp fjallið og þvert á Esjuhlíðar, um skóg og lautir. Flest ættu því að geta fundið sér útiveru við hæfi í Esjuhlíðum.
Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur unnið markvisst að því undanfarin ár að útvíkka skipulögðu útivistarsvæðin í Esjuhlíðum, til að dreifa álagi og mæta þörfum ólíkra hópa. Skiltin eru unnin í samstarfi við Ferðafélag Íslands.
Þá er brúin yfir Mógilsá að verða tilbúin og búið að opna fyrir umferð um hana. Í vikunni var gamalt efni úr brúnni tekið niður úr fjallinu. Stefnt er að lokafrágangi um helgina.


