Fréttir

Endurbætur á veginum við Keldudalsá

Vegurinn yfir Keldudalsá í Fellsmörk hefur verið endurbættur. Ræsum hefur verið skipt út, farvegurinn lagaður og vegkantur styrktur.

 

Vegurinn yfir Keldudalsá leiðir að svæðinu austast í Fellsmörk – Keldudal og Króki. Þar, líkt og víðar í Fellsmörk, stunda landnemar skógrækt á spildum sem þeir hafa fengið frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Gróðursetning á svæðinu hófst árið 1990 og hefur víða vaxið upp fallegur ungskógur.

 

Fellsmörk er í Mýrdal, undir Mýrdalsjökli með jökulárnar Klifandi og Hafursá sem næstu granna. Þær geta verið frekar til fjörsins. Til að komast inn í Keldudal þarf að fara yfir bæði Holtsá og Keldudalsá. Ræsi í veginum yfir síðastnefndu ána voru hætt að anna læknum í vatnavöxtum auk þess sem fyrir kom að ræsin stífluðus af torfi sem lækurinn reif með sér.Þá hafði Keldudalsáin einnig verið að grafa töluvert úr bakkanum meðfram veginum og þurfti að gera ráðstafanir vegna þess.

Keldudalsá í vatnavöxtum fyrir nokkrum árum.

Keldudalsá, ræsið og vegurinn eftir framkvæmdir haustsins.

Nú hefur tveimur 140 sm ræsum verið skipt út fyrir eitt stærra, 150 sm ræsi. Ánni var veitt til hliðar í annan farveg á meðan nýja ræsinu var komið fyrir og þar til búið var að moka yfir það. Farvegurinn var lagaður og mokað upp úr honum ofan við ræsið. Möl var mokað að kantinum sem grafið hafði úr og grjóti hlaðið á hann til að verja hann. Grjótvörn var einnig sett á vegkantinn við ræsið til að verja bæði veginn og ræsið. Þá hefur vegurinn yfir ræsið verið hækkaður og keyrt í hann fínu efni til að jafna og mýkja hann. Vegurinn var tekinn niður austan megin við ræsið til að verja ræsið í mestu vatnavöxtum sem þarna gætu orðið. Vatnið getur þá flætt yfir veginn í stað þess að grafa frá ræsinu og veginum.

Keldudalur í Fellsmörk. Mynd: Einar Ragnar.

Búrfell séð frá Keldudaldsheiði, ofan Fellsmerkur.