Fátt er huggulegra en að slaka á við lifandi eld. Hvort sem er innandyra við arinn á köldu vetrarkvöldi eða úti í náttúrunni, kannski með sykurpúða á pinna.
Hægt er að kveikja upp ýmsum viðartegundum, þótt þær hafi mjög misjafna eiginleika. Það er heldur ekki sama hvernig það er kveikt upp eða hvaðan eldiviðurinn kemur.
Það er margir kostir þegar kemur að eldivið á Íslandi, svo sem birki, fura, greni og ösp. Talsverður munur er á því hvernig eldiviðurinn virkar og hvaða áhrif hann hefur á umhverfið.
Sjálfbær framleiðsla
Út frá umhverfis- og loftslagssjónarmiði er mikilvægt að eldiviðurarframleiðslan sé sjálfbær. Ekki sé verið að taka meira úr skóginum en verður til, svo að skógurinn og vistkerfi hans beri ekki skaða af nýtingunni. Þá skiptir líka máli að eldiviður sé ekki fluttur um langa leið. Eldiviður er þungur og því geta flutningar verið orkufrekir og valdið talsverðri kolefnislosun.
Nú þegar skóglendið í Heiðmörk er komið á þann aldur að það vex ört og mikið þarf að grisja. Þetta er nauðsynlegt til að gefa öðrum trjám rýmni til að vaxa. Um leið opnast skógurinn fyrir birtu og verður aðgengilegri fyrir fólk. Í Heiðmörk er grisjað þannig að einstaka tré eru valin til fellingar. Ekki er verið að fella öll tré á ákveðnu svæði. Skógurinn að standa sterkari eftir grisjun.
Í viðarvinnslunni í Heiðmörk er eldiviður unninn úr grisjunarvið af bæði birki og furu. Greni en hins vegar aðeins unnið í borðvið og í kurl.
Birki, fura, greni og ösp
Teitur Björgvinsson í viðarvinnslu félagsins í Heiðmörk, segir að birki sé vinsæl eldiviður. Birki er þétt í sér og brenni lengi. Og svo þykir mörgum að birki gefi frá sér góðan ilm. Birki hentar bæði inni og úti, í opnar kamínur og lokaðar. Eldiviðurinn klofnar ekki við bruna, líkt og greni hættir til að gera. Birki hefur líka hátt brennslugildi þótt það sé ekki jafn hátt og brennslugildi í hlyn eða eik. Eik og fleiri harðviðartegundir svo sem beiki, hafa reyndar svo hátt brennslugildi eða kamínur geta hitnað um of og skemmst. Þá er tiltöluega auðvelt að kveikja í birki.
Vel er þó hægt að kynda með öðrum tegundum svo sem furu, greni og ösp. Vegna þess hve létt öspin er, gefur hún þó heldur lítinn varma samanborið við aðrar viðartegundir.
Furu ætti svo aðeins að nota í lokaðar kamínur, líkt og barrtegundir almennt, svo sem greni og lerki. Í barrtrjám er trjákvoða. Því smellur gjarna eða brakar þegar kynnt er með furu eða greni. Fura og greni henta þó ágætlega í lokaðar kamínur og eru notaðar til að kynda víða um heim.
Reyniviður er harðviður og þykir brenna vel. Aftur á móti hefur lengi hvílt helgi á reynivið. Í þjóðtrú margra landa er hann talinn búa yfir verndarmætti, t.d. gegn göldrum. Þá gróðursetti fólk reynitré við hús sín, til að bægja frá illum vættum. Margar sögur eru tengdar yfirnáttúrulegum mætti reynitrjáa og lengi illa séð að þau væru skemmd.
Ekki má brenna timbur sem hefur verið málað, gegnvarið eða plasthúðað. Sama gildir um plast og önnur efni sem geta gefið frá sér eiturgufur.
Að kveikja upp — ofan frá!
Hvernig er best að kveikja í eldivið? Algengt er að kveikt sé neðan frá og upp. Þá er auðbrennanlegt efni sett neðst og svo stærri kubbar ofan á, sem eldurinn læsir sig smám saman í. Eftir því sem eldiviðurinn brennur er svo gjarna nýjum kubbum bætt ofan á glóðina.
Þessari aðferð er fólk nú að snúa baki við. Helsta ástæðan er að þetta veldur „óhreinum“ bruna. Í eldiviðnum eru ýmis gös og ef eldurinn er neðst í staflanum, losna þau úr viðnum og sleppa út. Sé eldurinn hins vegar efst, brenna gösin um leið og þau losna. Þannig nýtist varmagildi eldiviðarins að fullu, minni reykur myndast og skaðleg efna losna ekki út í andrúmsloftið.
Minni mengun og betri nýting var ástæða þess að yfirvöld í Noregi réðust í átak til að fá fólk til að kynda með þessum hætti, fyrir nokkrum árum.
Auk þessara kosta, er almennt auðveldara að kveikja í ofan frá en neðan frá vegna þess að eldurinn á greiðari aðgang að súrefni. Það eru líka minni líkur á að það reykur berist inn í herbergið, vegna þess að skorsteinninn er kaldur. Loks þarf ekki að huga að eldinum eða bæta á hann, heldur er hann bara látinn brenna út.
Hér er myndband sem sýnir ágætlega hvernig hægt er að kveikja í ofanfrá.
Til að vel takist til, er svo auðvitað nauðsynlegt að viðurinn sé vel þurr. Miðað er við að rakastigið sé 20% eða lægra. Hægt er að slá eldiviðarkubbunum saman hlusta. Ef það heyrist holt hljóð, þá er viðurnn nógu þurr. Ef raki kemst í eldiviðinn eða hann helst rakur lengi og morknar, þá getur það lækkað brennslugildið.
Skorsteinar, óhreinindi og eldhætta
Skorsteinar geta fyllst af sóti, tjöru og öðrum óhreinindum. Víða erlendis er þess krafist að þeir séu hreinsaðir reglulega og jafnvel haft eftirlit með að það sé gert, á svipaðan hátt og eftirlit er haft með til dæmis lyftum í fjölbýlishúsum. Miðað er við að hreinsa skorstein einu sinni á ári, ef húsið eða íbúðin er að mestu kynnt með eldi. En á þriggja ára fresti ef aðeins er kveikt upp stöku sinnum. Ef skorsteinar fyllast af óhreinindum, getur verið hætta á að það kvikni í þeim.
Þá getur verið óvarlegt að kynda of hart. Slíkt getur leitt til of mikils hita í skorsteini og eldhættu. Mælt er með því að brenna sem mest þremur kílóum af eldivið í einu. Og gefa kamínunni færi á að kólna á milli þess sem kveikt er upp. Gjarna í jafn langan tíma og kynt var.
Á Íslandi er ekki algengt að arinn eða kamína séu notuð til að hita hús að einhverju marki. Að sögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins er mælt með hreinsun á skorsteinum minnst einu sinni á ári. En það fari eftir notkun. Hægt sé að meta þörfina með því að kanna þykkt sótlags í reykröri. Ef þykktin er 3 mm eða meira er ráðlegt að hreinsa.
1 thoughts on “Eldiviður er ekki bara eldiviður”
Comments are closed.