Íslensku trén sem eru seld eru vistvæn, þau vaxa bara inni í skógi, laus við skordýra- og sveppaeitur. Það væri hægt að anna mun stærri hluta eftirspurnarinnar eftir jólatrjám, ef fegurðarstaðlarnir væru aðeins aðrir. Normannsþinur er vinsælasta jólatréð en það vex ekki hér. Því eru tugþúsundir trjáa fluttar inn, að mestu frá Danmörku. Þessi tegund er vissulega falleg, en það þarf hins vegar að nota mikið af eiturefnum við framleiðsluna og svo þarf að sigla þeim alla leið hingað yfir hafið.
„Eins erum við líka að reyna að opna fyrir umræðu um fegurðarstaðla á jólatrjám.“
Þetta segir Tinna Ottesen, sem er jólamarkaðsstýra á Elliðavatni í Heiðmörk, en þar eru einstöku trén til sölu. Tré með karakter, sem mörg myndu ekki lifa inni í skógi til langframa.
Heiðmerkurskógurinn tvöfaldast að rúmmáli
Skógfræðingar hvetja fólk því til að koma í nytjaskógana og höggva sitt eigið tré eða kaupa tilbúið. Í Heiðmörk er til að mynda mikið framboð, enda hefur rúmmál skógarins þar tvöfaldast á síðustu þremur til fjórum árum svo það þarf að grisja mikið. Jólatrjáasalan er líka fjáröflun fyrir skógræktina, fyrir hvert tré sem er selt, eru þrjátíu ný gróðursett.
Frétt Þóru Arnórsdóttur mán 8.des tekin af fréttaveitu RÚV.