Fréttir

Efniviður úr skógi – Opið hús í Smiðjunni 21. mars

Mánudaginn 21. mars kl. 16-18 er opið hús í viðarvinnslu Skógræktarfélags Reykjavíkur í Smiðjunni í Heiðmörk. Tilefnið er að Sameinuðu þjóðirnar hafa útnefnd 21. mars sem alþjóðadag skóga. Í ár er lögð sérstök áhersla á 12 heimsmarkmiðið: Ábyrg neysla og framleiðsla.

Í Smiðjunni (sjá viðburð og staðsetningu hér) gefst tækifæri fyrir áhugasama að kynna sér viðarvinnslu félagsins. Á staðnum er aðstaða og tæki til að saga og þurrka smíðavið og vinna eldivið. Gestum býðst að fræðast um og skoða viðarafurðir og fylgjast með starfsmönnum vinna við stórviðarsagir þar sem trjábolir eru sagðir í borðvið.

Sjálfsagður hluti af skógrækt er nýting afurða úr skóginum. Eftir því sem íslenskir skógar vaxa og dafna aukast möguleikar á framleiðslu á góðum smíðavið og gæðatimbri. Eftirspurn og áhugi á að nýta þessari auðlind fer vaxandi enda aukin meðvitund um mikilvægi þess að nýta náttúruleg efni úr nærumhverfinu. Hér á landi er hefðin fyrir viðarvinnslu stutt en fyrirséð er að þáttur hennar mun aukast mjög í náinni framtíð. Notkun á innlendu timbri hefur marga ótvíræða kosti, hvort sem er fyrir samfélagið eða umhverfið. Timbur er umhverfisvæn, endurnýjanleg afurð sem oft er hægt að nota í stað efna sem hafa mikil umhverfisáhrif og stórt kolefnisspor, svo sem plasts, járns og steinsteypu. Einnig má nefna að vaxandi áhersla er lögð á umhverfisvænar vörur með þekktan uppruna auk þess sem flutningur á timbri yfir hafið með tilheyrandi kolefnisspori sparast. Þá eru ótalin þau atvinnutækifæri og sú verðmætasköpun sem getur orðið til í skógrækt og timburvinnslu hér á landi á næstu árum og áratugum.

Skógræktarfélag Reykjavíkur finnur mjög fyrir auknum áhuga á nýsköpun og nýtingu tengt skógarafurðum. Félagið á í samstarfi við menntastofnanir svo sem kennara og nemendur í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands og húsgangasmíði og húsasmíði við Tækniskólanum.

Nánari upplýsingar um alþjóðadag skóga má nálgast á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna hér.

Heimsmarkið sameinuðu þjóðanna