Fréttir

Dagur B Eggersson heggur fyrsta jólatréð í jólaskógi Heiðmerkur

Laugardaginn 7. desember opnar Skógræktarfélag Reykjavíkur jólaskóginn í Heiðmörk. Þá mun Dagur B Eggersson fella fyrsta tréð kl: 11.30 árdegis á laugardaginn í jólaskóginum í Hjalladal. En auk Dags hefur jólasveinn boðað komu sína á svæðið.

Það er orðin sterk hefð í mörgum fjölskyldum að koma í Heiðmörk á aðventunni og höggva sitt eigið jólatré. Í ár verður opið í Hjalladal helgarnar 7-8., 14.-15. og 21.-22. desember, kl. 11-16. Alla daga verður líf og fjör, jólasveinarnir verða á staðnum og það verður logandi varðeldur. Það er boðið upp á heitt kakó og piparkökur og jólalögin sungin.

Kveikt á Jólatré jólamarkaðarins

Laugardaginn 7. desember kl.14.30 verður kveikt á jólatré jólamarkaðarins við Elliðavatnsbæinn. Á hverju ári býður skógræktarfélagið hönnuði eða listamanni að skreyta torgtré á nýstárlegan máta. Að þessu sinni er það Tinna Ottesen hönnuður sem skreytir 4 metra fjallaþin, en Tinna sigraði í jólatrjáaskreytingarkeppni árið 2011 með óvenjulegri en fallegri útfærslu á jólatrjáaskreytingu.skrvk-jolatre

Rithöfundar lesa úr jólabókum

Jólamarkaður er opinn allar helgar á aðventunni við bæinn á Elliðavatni á milli kl. 11-16. Í kjallaranum í Elliðavatnsbænum er opið kaffihús þar sem rithöfundar lesa upp úr jólabókum. Núna um helgina munu höfundarnir Sigríður Þorgrímsdóttir með bókina Allar mínar stelpur og Yrsa Sigurðardóttir með bókina Lygi lesa upp á kaffihúsi kl.13.

Barnastund með barnabókahöfundum og jólasvein

Kl. 14 er barnastund í rjóðrinu við markaðinn. Þar munu barnabókahöfundarnir Elías S. Jónsson með bókina Álfadís og grimmd gullsins og Jóna Árnadóttir með Brosbókin lesa upp við varðeld og jólasveinn munu koma í heimsókn.skrvk-rjodur

Úrval af handverki og jólatrjám

Mikið úrval af íslensku handverki og hönnun er í boði á jólamarkaðnum auk nýhöggvinna íslenskra jólatrjáa úr Heiðmörk. Á sunnudaginn verður hestaleiga kl. 14.30 þar sem teymt verður undir börnum í hestagerði.

Leiðin á jólamarkaðinn og í jólaskóginn er vel merkt, bæði frá innkomuleiðinni við Rauðhóla og Vífilsstaðahlíð.  skrvk-hladid

Íslensk jólatré

Íslensk jólatré eru vistvæn,  ræktuð án eiturefna og  ekki flutt á milli landa. Allur ágóði af sölu jólatrjáa rennur til skógræktar í Reykjavík og staðinn fyrir hvert tré sem höggvið er gróðursetur Skógræktarfélag Reykjavíkur að minnsta kosti 30 tré.