Skógræktarfélagið hefur eins og kunnugt er umsjón með framkvæmdum á útivistarsvæðinu í Esjuhlíðum í landi Mógilsár og Kollafjarðar. Undanfarin ár hefur mikil vinnar verið lögð í að lagfæra stíginn frá bílastæðinu við Kollafjörð upp á Þverfellshornið, til dæmis unnu Ferðafélag Íslands og Spron þar mikið verk. Sjálfboðaliðar frá British Volunteers hafa verið í fjallinu í nokkur sumur, en þeir koma hingað fyrir milligöngu Umhverfisstofnunar. Sjálfboðaliðarnir hafa haft bækistöðvar sínar og notið aðstöðu og fyrirgreiðslu Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá, og hefur það verið þessu verkefni mikils virði. Aðal styrktaraðili stígagerðarinnar er Pokasjóður.
Í sumar var lögð áhersla á að laga efri brúna yfir Mógilsá og aðkomu að henni bæði að austan og vestanverðu, en þar var hreinlega hætta á ferðum fyrir göngumenn. Skógræktarfélagsmenn ásamt tveimur “fjallasmiðum” og áðurnefndum sjálfboaliðum unnu við lagfæringu brúarinnar. Á meðfylgjandi myndum sjást breytingar á brúnni frá í vor.
Þriðja myndin er tekin úr vestri 3. september síðastliðinn og sjást ný steinþrep upp úr gilinu að austanverðu. Fjallgöngumaður stefnir í áttina að Þverfellshorni með hundi sínum upp eftir hryggnum austan Mógilsár. Í fjarska er Gunnlaugsskarð og sést hinn frægi skafl í skarðinu, hann er nú tvískiptur og mun líklega hverfa alveg fyrir sumarlok.