Fréttir

Borgartréð 2012

Borgartréð 2012 var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn þann 18. ágúst og er það 112 ára gamall gljávíðir í garði Hressingarskálans við Austurstræti.

Garðurinn við Hressingarskálann er einn þekktasti einkagarður frá lokum nítjándu aldar og stóð við hús Árna Thorsteinssonar landfógeta í Reykjavík frá 1862. Garðurinn var nýttur til skrauts og nokkurra nytja og var jafnan kallaður Landfógetagarðurinn.  Gljávíðinn fékk Árni að gjöf frá Schierbeck landlækni og var víðirinn gróðursettur um 1900. Þegar Árni flutti inn í húsið var fyrir kartöflugarður og lítil skilyrði til garðræktunar. Lét hann smám saman grafa gryfjur í garðinn og fyllti þær með mold og áburði og tók verkið allmörg ár. Garðurinn var stór og í honum ræktaði Árni fjölda plantna, sem aldrei fyrr höfðu verið ræktaðar hér á landi. Hinum algengustu garðjurtum og innlendum skrúðplöntum var heldur ekki gleymt.

Gljávíðirinn hefur upplifað ýmislegt á sínum 112 árum. Fyrir nokkrum árum hallaðist hann á hlið í miklum stormi, en með aðstoð stoða hefur hann  náð að skjóta rótum að nýju. Þykkar greinar gljávíðisins eru sérlega vinsælar til klifurs hjá börnum, en gljávíðirinn hefur fjóra 30 cm þykka boli, er um 6-7 metra hár og um 8-9 metra langur.

Tréð var valið af Skógræktarfélagi Reykjavíkur í samstarfi við Reykjavíkurborg.