Esjufréttir

Bætt öryggi við Þverfellshorn og tengileið í Esjuhlíðum kláruð

Í sumar verður áfram góður gangur í uppbyggingu útivistarsvæðanna í Esjuhlíðum. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur fengið styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta öryggi við Þverfellshorn og ljúka við tengileið neðar í hlíðum Esjunnar.

 

Öryggi við Þverfellshorn

Undanfarna áratugi hefur verið unnið að því að stækka útivistarsvæðin, gera þau fjölbreyttari og koma í veg fyrir árekstra ólíkra útivistarhópa, svo sem göngufólks og hjólreiðafólks. Jafnframt hefur ýmislegt verið gert til að auka öryggi. Meðal annars með því að bæta stíga og tryggja Stein í Esjunni, við Þverfellshorn.

 

Þverfellshorn er beint upp af bílastæðinu við Mógilsá og afar vinsælt að ganga upp Esjuna þar. Síðasta sumar var þessi gönguleið löguð á um 300 metra kafla, fyrir styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Í sumar verður haldið áfram að bæta öryggi vegfarenda nokkru ofar. Á Þverfellshorni er klettabelti og algengt að fólk fari eftir syllum í beltinu, þar sem mikið er af lausu grjóti. Grjótið getur auðveldlega farið af stað niður hlíðina og valdið hættu fyrir fólk sem er á gönguleiðum neðar í fjallinu. Með framkvæmdum sumarsins á að beina umferð um skilgreinda og vel hreinsaða leið. Þegar er búið að setja nýja keðju á um 50 metra langan kafla í klettunum. Til stendur að lengja þann kafla umtalsvert.

 

Lokið við tengileið í Esjuhlíðum

Skógræktarfélag Reykjavíkur fékk einnig styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að ljúka við tengileið í Esjuhlíðum. Tengileiðin liggur frá aðalbílastæðinu Mógilsá að nýlegu bílastæði við Kollafjarðará. Tengileiðin veitir aðgang að stærra og fjölbreyttara útivistarsvæði en áður. Hún liggur þvert á neðri hlíðar Esjunnar og auðveldar aðgengi meðal annars að þroskuðum og hávöxnum skógi, trjásafni Skógræktarinnar, útsýnisstöðum, sérstökum hjólaleiðum og stikaðri gönguleið að Gunnlaugsskarði sem er talsvert ólík öðrum gönguleiðum á svæðinu.

 

Unnið var að lagningu tengileiðarinnar síðasta sumar. Eftir er að bæta eldri hluta leiðarinnar og gera aðkomu frá Esjustofu við Mógilsá greinilegri, til að svæðið virki sem best til útivistar. Einnig þarf að bæta merkingar og setja upp upplýsingaskilti með nýju leiðakerfi..

Nýja tengileiðin er til hægri á myndinni en hefðbundinn gönguleið upp að Steini er til vinstri. Mynd: Jón Haukur Steingrímsson.

Gestafjöldi

Í desember setti Skógræktarfélag Reykjavíkur upp teljara í Esjuhlíðum sem telur fjölda gesta sem halda á Esjuna frá bílastæðinu við Mógilsá. Síðustu mánuði hafa að meðaltali 282 haldið á Esjuna frá bílastaæðinu á degi hverjum.

 

Flestir fóru á Esjuna sunnudaginn 2. maí eða 1.009. Að jafnaði kemur flest fólk um helgar, yfir miðjan daginn, að meðaltali 433. Á virkum dögum er meðaltalið 220. Þá ef vinsælast að koma síðdegis, eftir klukkan fjögur.

 

Með vorinu hefur gestafjöldi aukist og verður fróðlegt að fylgjast með tölunum yfir sumarmánuðina.

Skipting gesta sem fóru á Esjuna, frá bílastæðinu við Mógilsá, eftir tíma dags og vikudögum. Töflurnar sýna meðaltöl á tímabilinu frá áramótum og fram í miðjan maí 2021.