Fréttir

Ályktun vegna SÍ og Teigsskógar

Ályktun stjórnar Skógræktarfélags Reykjavíkur 24. okt. 2014.


Stjórn Skógræktarfélags Íslands ( S.Í. ) hefur nú í annað sinn ályktað um vegagerð í gegnum Teigsskóg við Þorskafjörð, í þetta sinn m.a  til að segja ómerka lýsingu í ályktun Skógræktarfélags Reykjavíkur um það sem gerðist á aðalfundi S.Í. í ágúst sl.

Aðalfundurinn féllst ekki á tillögu stjórnar S.Í. um stuðning við vegarlagninguna og sendi hana aftur til stjórnarinnar. Þær staðhæfingar stjórnar S.Í. að það hafi nánast verið af tæknilegum ástæðum, sem aðalfundurinn sendi tillöguna aftur til stjórnar eru í öllum meginatriðum rangar og úr lausu lofti gripnar. Stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur stendur við það að undirtektir í skógræktarnefnd aðalfundar hafi verið dræmar og að ályktun S.Í. um vegarlagninguna hafi verið í andstöðu við vilja aðalfundar eins og hann birtist í umræðum og með afgreiðslu tillögunnar.

Þrátt fyrir málafylgju stjórnar S.Í. vakti tillagan hörð viðbrögð. Hún gekk þvert á tilgang S.Í. sem er að vernda og rækta skóga í landinu. Það er rangt að ósætti hafi verið um tillöguna vegna “óskýrleika í framsetningu” hennar. Ósætti var af þeim ástæðum að mönnum var misboðið með þessu óvænta framtaki stjórnarinnar. Með sama hætti er það hreinn tilbúningur að þorri fundarmanna hafi “verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að umorða tillöguna.” Rauði þráðurinn í umræðum var einmitt sá, hvernig það mætti vera að S.Í. gengi þannig fram þvert á tilgang félagsins. Afdrif tillögunnar réðust síðan af því, hvort henni skyldi vísað frá fundinum eða til stjórnar, en tillögur lágu fyrir um hvort tveggja. Þeir sem helst voru til andmæla lögðu loks til að henni yrði vísað til stjórnar. Með því er flytjanda tillögu sagt á kurteislegan hátt að tillaga hans njóti ekki fylgis. Fyrirmyndin að slíku verklagi er öllum ljós og þarf ekki að skýra nánar. Kjarni málsins er sá að stjórn S.Í. fékk ekki umboð fulltrúa skógræktarfélaga í landinu til að styðja ráðagerðir um umtalsverðan ruðning skóglendis, ef frá eru talin skógræktarfélög á Vestfjörðum.  Með því að bera á borð slíkar rangfærslur gerir hún hlut sinn síst betri.

Í yfirlýsingu stjórnar S.Í. segir að hún hafi hlustað á „raddir skógræktarmanna og fólksins sem býr við erfið samgönguskilyrði á Vestfjörðum“. Það vekur athygli, ekki bara hjá skógræktar- og náttúruverndarfólki víða um land, að S.Í. skuli með samþykkt sinni ganga fram eins væri hún kjördæmapólitísk samtök. Álit  íslenskra náttúru- og gróðurverndarsamtaka og jafnframt  Skógræktar ríkisins  og Umhverfisstofnunar  falla öll í sama farveg. Sú eyðilegging sem verður af vegalagningu eftir endilöngum skóginum er óafturkræf og spillir vistkerfi svæðisins til framtíðar. Með samþykkt sinni vildi stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur lýsa stuðningi sínum við verndun skógarins og andstöðu  við þau endaskipti sem stjórn S.Í. gerir á meginhlutverki sínu, með því að styðja að dýrmætum skógi sé eytt.