Fréttir

Alþjóðlegi farfugladagurinn og vormarkaðurinn

Laugardaginn 8. maí næstkomandi mun Fuglavernd halda upp á alþjóðlega farfugladaginn með því að bjóða upp á fuglaskoðun við Elliðavatn. Lagt verður af stað frá Elliðavatnsbæ stundvíslega klukkan 14:00 og munu þeir Edward Rickson og Jakob Sigurðsson leiða gönguna. Gaman er að taka sjónauka með en veðurstofan spáir góðu skyggni og stilltu veðri. Flestir íslenskir fuglar eru farfuglar og koma hingað að verpa og ala upp unga sína. Að þessum degi standa alþjóða samningurinn um flökkutegundir og samningur um votlendisfugla Evrópu, Asíu og Afríku. Félög á sviði náttúru-og fuglaverndar taka sig saman um að halda upp á daginn með ýmsum uppákomum um allan heim og vilja þar með minna á að fuglar eigi sér engin landamæri og að alþjóðlegt samstarf sé nauðsynlegt til að tryggja tilvist farfuglanna. Á ári líffræðilegrar fjölbreytni bendum við á að farfuglarnir eru ágætis vísar á að vistkerfi landsins sé heilbrigt. Ef þeir þrífast þá eru meiri líkur á að mannfólkið þrífist. Hér á Íslandi verpir 75% Evrópustofns spóa, 75-80% álku, 60% stofns heiðlóu og 60-70% stofns kríu þannig að Ísland er langmikilvægasta einstaka varpsvæði margra fuglategunda í heiminum og hefur skyldum að gegna við að vernda varpsvæðin þeirra. Fuglavernd mun kynna félagið á vormarkaði Skógræktarfélags Reykjavíkur um helgina og vera með varning til sölu sem tengist fuglum. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu okkar www.fuglavernd.is.
Meðfylgjandi er falleg mynd af himbrima og þó að þessi mynd hafi verið tekin á Þingvallavatni þá eru líkur á að hægt sé að sjá himbrima á Elliðavatni.  Ljósmyndari Jakob Sigurðsson.

himbrimi_jakob_sigurdsson