Sögudagatal

Afraksturinn af sumarstarfi þúsunda ungmenna

Þúsundir ungmenna hafa lagt hönd á plóg í því mikla skógræktarstarfi sem unnið hefur verið í Heiðmörk. Margar kynslóðir sem geta því verið stoltar af sínum hlut í því hve gróðursæl Heiðmörk er í dag.

 

Strax árið 1950, skömmu áður en Heiðmörk var formlega opnuð, varð það fyrsta verk reykvískra barna sem tóku þátt í skólagörðunum að gróðursetja trjáplöntur í Heiðmörk. Enda var það „eitt af markmiðum skólagarðastarfseminna að vekja áhuga og kenna unglingum grundvallaratriði skógræktar“, sagði E.B. Malmquist, ræktunarráðunautur, í viðtali við Morgunblaðið í maí 1950.

 

Nokkrum árum síðar, 1955, hófst reglubundið samstarf Vinnuskóla Reykjavíkur og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Til að byrja með störfuðu aðeins stúlkur við gróðursetninguna og voru þær 20-50 talsins, á aldrinum 14-15 ára. Afköstin voru umtalsverð. Árið 1956 gróðursettu stúlkurnar um þriðjung af þeim 100 þúsund trjáplöntum sem setta voru niður í Heiðmörk. Kynjaskiptingin lagðist þó fljótlega af og þeim sem unnu á vegum Vinnuskólans í Heiðmörk fjölgaði í um 200 til 250 á sjöunda og áttunda áratugnum.

 

Auk gróðursetninga hafa ungmenni til dæmis sinnt grisjun, uppkvistun, stígagerð og snyrtingu umhverfis Elliðavatnsbæinn. Síðustu ár hefur Vinnuskólinn ekki starfað í Heiðmörk. Aftur á móti hafa 15-20 ungmenni á vegum Landsvirkjunar starfað þar yfir sumartímann undanfarna tvo áratugi.

 

Allt er þetta í samræmi við vonir þeirra sem stóðu að stofnun Heiðmerkur. Gunnar Thoroddsen, borgarstjóri Reykjavíkur, orðaði þær vonir svo, við vígslu Heiðmerkur 1950: “Hjer fær æskan, sem á að erfa landið, útrás fyrir starfslöngun, verkefni við það göfuga og þroskandi starf, að gróðursetja trje fyrir framtíðina.”

 

Þessi umfjöllun er hluti af afmælisdagatali að tilefni þess að 70 ár eru frá opnun Heiðmerkur. Hægt er að fylgjast með afmælisdagatalinu á Instagram og Facebooksíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur.