Á döfinni, Fréttir

Afmælishátíð og fræðsluganga á 75 ára afmæli Heiðmerkur

Heiðmörk, friðland Reykvíkinga, var formleg vígð 25. júní 1950 og er því 75 ára á þessu ári.

Til að fagna tímamótunum verður afmælishátíð Heiðmerkur laugardaginn 28. júní, í Vífilsstaðahlíð, klukkan 12-17.

Boðið verður upp á leiki og andlitsmálun. Kaffihús verður opið og varðeldur logar.

Klukkan 12:30 verða hátíðarávörp og fræðsluganga klukkan 13. Klukkan 14:30 stýra starfsmenn félagsins svo keppnum milli þeirra sem vilja.

Öll velkomin í gleði og gaman í fögru umhverfi skógarins. Við vonum að sem flest komi og fagni með okkur á afmælinu!

Hlekkur á viðburðinn á Facebook er hér.

Afmælisganga
Á afmælisdaginn sjálfan, miðvikudaginn 25. júní, verður fræðsluganga í samstarfi við Garðyrkjufélag Íslands.

Gengið verður um Vífilsstaðahlíð og trjásýnireit. Auður Kjartansdóttir og Aðalsteinn Sigurgeirsson skógerfðafræðingur leiða gesti um trjásýnireit, segja frá tegundum, ræktunarstarfi og Heiðmörk. Í trjásýnireitnum voru sérstæð tré nýlega merkt, gróður grisjaður og stígar lagaðir.

Gangan hefst við bílastæðið í Vífilsstaðahlíð, miðvikudaginn 25. júní klukkan 18. Gangan er létt, tekur um tvær klukkustundir og endar á sama stað.

Kaffihús verður opið fyrir og eftir gönguna, á áningarstaðnum í Vífilsstaðahlíð.
Hlekkur á viðburðinn á Facebook er hér.