Esjufréttir

Aðalfundur og heiðurslundir í Esjuhlíðum

Aðalfundur Skógræktarfélags Reykjavíkur fór fram þriðjudaginn 15. september. Fjórir nýir stjórnarmenn voru kosnir á fundinum. Þau Auður Jónsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Hallur Björgvinsson og Sigurður G. Tómasson hurfu úr stjórn. Sæti í aðalstjórn tóku Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Páll Þórhallsson. Í varastjórn tóku sæti Hjördís Jónsdóttir og Sverrir Bollason.

Eftir hefðbundin aðalfundarstörf flutti Jón Haukur Steingrímsson erindi um framkvæmdir í Esjuhlíðum. Þar hefur verið unnið að því að stórbæta aðgengi að útivistarsvæðinu. Í vor fékk Skógræktarfélag Reykjavíkur 17 millljóna króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að leggja tæplega tveggja kílómetra stíg frá Esjustofu við Mógilsá að bílastæðinu við Kollafjarðará. Áður hafði félagið fengið styrk úr sama sjóði til að laga gönguleiðina upp að Steini í Esjunni, þar sem mikill leir er í stígnum á um 300 metra kafla. Þriðju styrkurinn fékkst svo í sumar frá Vegagerðinni, til að laga vegi á svæðinu. Jón Haukur, sem starfar hjá verkfræðistofunni Eflu, hefur haft umsjón með verkunum.

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur haft umsjón með útivistarsvæðinu við Esjuna síðan um síðustu aldamóti. Síðustu tvö ár hefur verið unnið að því að útvíkka skipulögðu útivistarsvæðin til að dreifa álagi og mæta þörfum ólíkra hópa. Hluti af gamla veginum upp Esjuhlíðar hefur verið lagfærður og lítið bílastæði gert við Kollafjarðará, neðan Gunnlaugsskarðs. Þar er búið að merkja ein gönguleið og tvær sérstakar fjallahjólaleiðir. Myndir, kort og nánari upplýsingar má nálgast hér.

 

Heiðurslundir

Í síðustu viku voru vígðir tveir lundir til heiðurs þeim Þorvaldi S. Þorvaldssyni og Þresti Ólafssyni. Með heiðurslundunum vill Skógræktarfélag Reykjavíkur þakka þeim fyrir dyggilegt starf fyrir félagið. Þorvaldur, sem er arkitekt og fyrrverandi skipulagsstjóri Reykjavíkur, er fyrrverandi formaður félagsins og sat í stjórn þess samfellt í 36 ár. Þröstur, sem er hagfræðingur, sat í stjórn félagsins um árabil og var formaður þess 2007-2018.

Heiðurslundirnir eru við Kollafjarðará, nokkuð neðan við nýja bílastæðið neðan Gunnlaugsskarðs.

Þröstur og Þorvaldur, fyrrverandi formenn félagsins, lyfta glasi í tilefni gróðursetningarinnar.

Þröstur Ólafsson og Helgi Gíslason, fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins, við gróðursetningu.