Barnakór — aðventukransagerð — Jólamarkaðstré — handverksmarkaður — barnastund í Rjóðrinu
Fyrsta opnunarhelgi Jólamarkaðsins í Heiðmörk er nú um helgina. Markaðurinn opnar klukkan 12:00, með söng Kórs Norðlingaskóla. Á torginu við Elliðavatnsbæinn er svo Jólamarkaðstréð, sem í ár er skreytt af Margréti Katrínu Guttormsdóttur textílhönnuði. Hægt að gæða sér á kökum, heitu kakó og nýristuðum möndlum.
Opin vinnustofa í gerð aðventukransa verður í Jólakjallaranum í Elliðavatnsbænum, frá kl. 13 til 15, bæði laugardag og sunnudag. Þátttakendur útbúa kransa undir leiðsögn Ingunnar Bjarkar Vilhjálmsdóttur. Aðgangseyrir er 10.000 kr. Innifalið er grunnefni fyrir kransinn (s.s. greni og könglar úr Heiðmörk, vír og 35 cm grunnkrans). Einnig er velkomið að taka með sér skraut fyrir kransana.
Á handverksmarkaðnum er sérstök áhersla lögð á einstakt handverk og innlend matvæli úr náttúrulegum hráefnum.
Í Rjóðrinu, nærri Elliðavatnsbænum, verður barnastund klukkan 14, alla opnunardaga. Höfundar nýrra barnabóka lesa úr verkum sínum við varðeld.
Með Jólamarkaðnum vill félagið stuðla að ævintýralegri upplifun í vetrarparadísinni Heiðmörk þar sem fólk getur notið útiveru í skóginum, valið fallegt jólatré og einstakar gjafir á handverksmarkaðnum, og haft það notalegt á aðventunni. Félagið selur að sjálfsögðu aðeins íslensk jólatré. Fyrir hvert jólatré sem selst eru 50 gróðursett. Við ætlum að standa á bremsunni gagnvart verðbólgunni og seljum jólatrén á sama verði og í fyrra.
Jólamarkaðurinn verður svo opinn allar aðventuhelgar, frá 12 til 17. Jólaskógurinn opnar helgina 7. og 8. desember og verður opinn þrjár helgar. Viku fyrir jól komum við svo með jólastemmninguna úr skóginum á Lækjartorgi, þar sem félagið verður með jólatrjáasölu líkt og síðustu ár.Nánari upplýsingar um jólaviðburði Skógræktarfélags Reykjavíkur má finna hér.