Fréttir

„Skógurinn hélt utan um mann í æsku“

Þórveig Jóhannsdóttir er nýr starfsmaður Skógræktarfélags Reykjavíkur. Þórveig er skógfræðingur og mun sjá umskipulagningu gróðursetninga.

 

Þórveig starfaði áður hjá Skógræktarfélagi Íslands en hefur líka unnið við landvörslu, í gróðrarstöð, við gerð gagnagrunns og sem skógræktarráðgjafi. Einnig er hún alin upp við skógrækt.

 

Þórveig er að austan — úr Fljótsdalshéraði sem er líklega mesta skógræktarsvæði landsins. Hún var í heimavistarskóla á Hallormsstað, sem er inni í skóginum. „Ef rigndi, var alltaf birki- og asparangan. Skógurinn hélt utan um mann í æsku. Þannig að ég ólst upp við að vita hvernig skógur getur verið og líka að það sé hægt að rækta skóg á Íslandi.“ Foreldrar Þórveigar eru skógræktarbændur. „Við gróðursettum fyrstu trén þegar ég var sex ára og bróðir minn þriggja. Svo við höfum séð skóginn vaxa upp síðan.“ 

 

Eftir stúdentspróf var Þórvegi óviss um hvaða námsbraut hún vildi velja. En þegar prófessor við Landbúnaðarháskólann hvatti pabba hennar til að fara í nám í skógfræði, sá hún sér leik á borði, skráði sig til náms á Hvanneyri og fann fljótt að námið átt vel við hana.

 

„Áhugasviðið mitt liggur ekki í timburframleiðslu skóga heldur eiginlega öllu hinu. Hvernig skógur getur bætt upp vistkerfaþjónustur. Hvernig skógar haft áhrif á veðurfar, vatnsmiðlun, vatnsgæði, komið í veg fyrir rof og grætt upp landið. Og svo er allt lífríkið í skóginum — sveppirninr, berin, fuglalífið….ilmurinn og einhvern veiginn þessi kraftur/orka sem útivist í skógi gefur manni.“

 

Þórveig segist hafa notið þess þegar hún vann hjá Skógræktarfélagi Íslands (S.Í) að fara um landið og hitta fólk með áhuga á skógrækt og skoða skóga aðildarfélaga S.Í. víðsvegar um landið. Langflest skógræktarfélög eru að rækta útivistarskóga — skóga til að njóta í, koma saman í. Lýðheilsuskóga. Eins og Heiðmörk.

 

Vinna við skipulagningu gróðursetninga fer mikið fram á skrifstofu, við tölvu. En Þórveig vonast líka til að geta verið mikið úti í skógi að vinna. Enda fátt betra.