Félaginu var að berast nýtt tæki: skógarspil. Með spilinu er hægt að draga trjáboli út úr skóginum. Því þarf ekki lengur að gera sérstakar leiðir inn í skóginn þegar verið er að grisja, til að ná út timbrinu. Nýja skógarspilið gerir grisjun þannig auðveldari og skilvirkari auk þess sem inngripið í skóginn verður minna. Þá gagnast það vel þegar verið er að vinna í miklum bratta, svo sem í Vífilsstaðahlíð. Eða þar sem erfitt er að koma tækjum að af öðrum ástæðum.
Nýja spilið er af gerðinni Tafjun og framleitt í Slóveníu, þar sem mikið er um fjalllendi. Það er með 90 metra vír og 4,5 tonna dráttargetu. Spilið verður tekið í notun von bráðar, enda veturinn yfirleitt kjörinn árstími til að grisja skóglendið.
Um grisjun og mikilvægi sjálfbærrar grisjunar fyrir skóginn, var fjallað í Skógarfróðleik á síðasta ári.