Trjátegund mánaðarins

Blæösp (Populus tremula)

Blæösp er ein af örfáum trjátegundunum á Íslandi sem telst vera íslensk. Hún hefur fundist á sex stöðum á landinu, fimm á Austfjörðum og ein í Garði í Fnjóskárdal. Blæaspir eru ein útbreiddasta trjátegund veraldar. Útbreiðslusvæðið nær frá Íslandi austur í Kamsjatka og suður í Atlasfjöll. Frænka hennar, nöturöspin, liggur svo þvert yfir Norður-Ameríku á svipuðum breiddargráðum. Í skógunum má sjá ljósgræna bletti eða breiður af öspunum sem verða svo gulir á haustin.

 

Öspin vex best í rökum, næringarríkum og hlýjum jarðvegi, með góðu frárennsli. Hún getur orðið um 30 metrar á hæð á góðum vaxtarstað en á Íslandi verður hún líklega ekki mikið hærri en 10 – 15 metrar. Erlendis er viður blæasparinnar aðallega notaður til að framleiða pappír og spónaplötur. Plantan er grannvaxin, beinstofna þar sem hún fær að vaxa í skjóli og blöðin vaxa á frekar löngum stilk sem gerir það að verkum að þegar hreyfir vind, hreyfast blöðin og mynda skemmtileg hljóð í blænum. Ber hún eflaust nafn sitt af því.

 

Í uppáhaldi hjá sauðkindinni

Ólíkt alaskaöspinni er erfitt að fjölga blæöspinni í einhverju magni. Fræin eru mjög fínleg og drepast fljótt. Ekki er talið að hún geti fjölgað sér með fræjum á Íslandi. Henni er því oftast fjölgað með rótarskotum og vefjarækt en hún dreifir sér sjálf um skógana með rótarskotum og myndar því bletti eða einsleit svæði sem skera sig úr á haustinn fyrir fallega skæra gula haustliti.

 

Sauðkindin okkar elskar blæaspir og er það líklega ein aðalástæðan fyrir því hve hún hefur átt erfitt uppdráttar hér á landi fyrir utan óblítt og hryssingslegt veðurfar í aldanna rás. Ekki er vitað hvernig hún barst hingað til landsins. Blæasparfræ hafa fundist í háloftavindi en svo getur verið að fólk hafi komið með hana með sér.

 

Blæaspir í Tyrklandi. Mynd: Zeynel Cebeci ,Wikimedia Commons.

Hof í Vatnsdal.

 

Fegurð og fjölbreytileiki en litlar nytjar

Á blæöspin heima í skógunum okkar? Ekki kannski til nytja en hún er falleg og fjölbreytileiki er alltaf af hinu góða. Hann dregur úr sýkingu á svæðinu. Ein er þó paddan sem er mjög hrifin af blæöspum en það er asparglyttan. Hún myndar brúna bletti á laufblöðunum og er lirfan hennar mjög skæð á ungplöntum. Hún hristir hana þó af sér þegar hún stækkar.

 

Margir hafa sett blæaspir í skógarreitina sína. Þó nokkuð er af henni í skógunum á Austfjörðum svo hefur garðsöspinni svo nefndri frá Garði í Fnjóskárdal verið plantað víða um miðbik síðustu aldar og hefur sums staðar náð að dreifa sér mjög mikið með rótarskotum. Má þar nefna Hof í Vatnsdal þar sem hún er augljóslega á sínum drauma stað. Hafa plönturnar vaxið vel, margar komnar yfir 10 metra og dreifa sé hratt. Svo má nefna Skorradal, Múlakot og meira að segja Mosfellsbæ. Eitthvað var flutt inn frá Danmörku af blæöspum í upphafi síðustu aldar og sem dæmi má nefna Grund í Eyjafirði. Þar eru stórar og myndarlegar plöntur sem hafa dreift sér víða. Hægt er að sjá myndefni af því inná Youtube undir „Grundarreitur í Eyjarfirði“.

 

Súlublæösp í garði.

 

Eitt af afbrigðum blæaspar er súlublæösp (Populus tremula ‚Erecta‘). Hún er blæösp sem fannst í Suður-Svíþjóð sem vefur greinar sínar um stofninn. Skemmtilegt garðtré og götutré. Töluvert hefur verið framleitt hér á landi af þessari trjátegund. Hún vex ótrúlega vel í görðum á öllu landinu og hafa Akureyringar plantað henni meðfram aðalgötunni inn í bæinn. Sumar eru ágræddar og dreifa sér því ekki og í næringarríku og hlýju beði dreifa þær sér lítið.

 

Hentar vel í yndisskógum og sem landgræðsluplanta

Blæöspin verður því líklega ekki nytjaplanta í skógunum okkar en í yndisskógum á hún heima og á skjólgóðum stað í lúpínubreiðu yrði hún góð landgræðsluplanta. Ég vil því hvetja fólk sem langar að planta blæöspum í sumarbústaðalandið eða í skógarreitinn sinn, að skoða fyrst gamla blæasparreiti en þá má finna meðal annars á netinu. Þórarinn Benedikz skrifaði grein í Skógræktarritið 1994 um blæösp sem er áhugaverð lesning.

 

Þuríður Yngvadóttir