Göngustígar og akvegir í Heiðmörk eru opnir gestum þrátt fyrir gróðureldinn sem geisaði við þriðjudaginn 4. maí. Á meðan veður er jafn þurrt og nú er, vill Skógræktarfélag Reykjavíkur banna fólki reykingar og hvers kyns meðferð elds eða eldfæra í Heiðmörk. Gestir friðlandsins eru hvattir hugsa vel um náttúruna.
Samkvæmt nýjustu mælingum fór eldurinn yfir um 61 hektara lands við Hnífhól, milli Hjalladals og Löngubrekkna. Þar af var ræktaður skógur á 46 hekturum og náttúrulegt birki á 5,5 hekturum, líkt og sjá má á kortunum hér að neðan. Heiðmörk er um 3.200 hektarar að flatarmáli. Hluti svæðisins sem brann var skógi vaxinn og urðu sum trén illa úti. Tíminn mun leiða í ljós hve mörg þeirra ná sér aftur á strik og hve mörg deyja.
Talsverð aska og ryk er á svæðinu. Ef vindur er, getur rokið úr svæðinu og kann það að valda fólki óþægindum ef það er á ferð í nágrenninu – til dæmis við Þjóðhátíðarlund.
Skógræktarfélag Reykjavíkur bendir fólki einnig á vefsíðuna Gróðureldar, þar sem hægt er að fræðast gróðureldum, forvarnir og viðbrögð við þeim. Skógræktarfélagið vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til slökkviliðsmanna, björgunarsveita, lögreglu og annarra sem komu að því að ráða niðurlögum eldsins.