Heiðmörk með sínu skjólgóða og fagra umhverfi hefur um árabil notið mikilla vinsælda meðal gönguskíðafólks. Ný gönguskíðabraut hefur verið lögð sem auðveldar aðgengi að svæðinu. Þá hefur nýr búnaður verið tekinn í notkun til að bæta þjónustuna.
Nýja gönguskíðabrautin liggur frá Elliðavatnsbænum, framhjá Myllulækjartjörn og að gönguskíðabrautunum við Hjallabraut. Nú er því hægt að leggja bílum á bílastæðinu við Elliðavatnsbæinn og halda af stað þaðan á gönguskíðum.
Þar til nú hefur gönguskíðafólk jafnan ekið að Hjallabraut og lagt þar. Vetrarfærð um Heiðmörk getur verið misgóð. Síðasta vor var um tíma lokað fyrir bílaumferð um stóran hluta Heiðmerkur vegna þess að mikill snjór hafði þjappast í svell og erfiðað akstursskilyrði. Vegna þessara aðstæðna, óskuðu Veitur eftir því að lokað yrði fyrir bílaumferð um Heiðmerkurveg nærri vatnsverndarsvæðum. Þetta var talið nauðsynlegt til að tryggja mætti öryggi vatnsverndarsvæðanna enda gæti olíuleki vegna bílslyss valdið miklu tjóni. Nýja gönguskíðabrautin er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur og Orkuveitu Reykjavíkur og unnin í samstarfi við Skíðagöngufélagið Ull. Með henni verður hægt að halda á gönguskíði án þess að aka framhjá vatnsverndarsvæðunum auk þess sem aðgengi að bílastæðum batnar. Skíðagönguflélagið Ullur hefur átt frumkvæði að uppbyggingu göngustígabrauta síðustu ár með sjálfboðaliðastarfi og ber að þakka það góða starf sem þar er unnið.
Nýja gönguskíðabrautin er um 2,4 kílómetra löng. Hún var lögð í sumar og haust. Ryðja þurfti braut í gegnum skóginn, slétta undirlag á köflum og bera í efni á stöku stað. Stefnt er að því að halda áfram með þessa vinnu þannig að hjólreiðafólk eigi auðveldara með að nota brautina yfir sumarmánuðina.
Hægt að fylgjast með sporlagningu í rauntíma
Nýr staðsetningarbúnaður sem Skíðagöngufélagið Ullur hefur fest kaup á, mun í vor gera fólki kleift að fylgjast með því í rauntíma þegar verið er að troða brautir. Gönguskíðabrautir í Heiðmörk hafa verið merktar og eru nú hægt að sjá þær á Skisporet annað hvort á vefnum eða í appi. Framvegis verður hægt að fylgjast sporlagningu í rauntíma og sjá hve langt er liðið frá því að gönguskíðabrautin var troðin. Sami búnaður er nú í notkun í Bláfjöllum, á skíðasvæði Ísfirðinga, í Hlíðarfjalli og Kjarnaskógi í Eyjafirði.
Desember var óvenju snjólítill víðast hvar á landinu og aðeins tveir alhvítir dagar í Reykjavík. Í Heiðmörk er auð jörð þegar þetta er skrifað. Starfsmenn félagsins bíða spenntir eftir snjónum svo að hægt verði að byrja að troða brautir, prófa nýju gönguskíðabrautina og staðsetningarbúnaðinn.
Skógræktarfélag Reykjavíkur þakkar Skíðagöngufélaginu Ulli fyrir verðmætt framlag í þágu útivistar í Heiðmörk. Félagsmenn hafa lagt á sig mikla sjálfboðaliðavinnu og aflað fjármuna í samstarfi við ÍTR til að efla aðstöðu fyrir gönguskíðafólk í Heiðmörk.