Jólatré eiga sér um 170 ára langa sögu á Íslandi. Þó eru aðeins nokkrir áratugir síðan lifandi tré, ræktuð hér á landi, urðu algeng í stofum landsmanna.
Fyrsta jólatréð á Íslandi var líklega sett upp í stofu dansks kaupmanns eða íslensks embættismanns um miðja 19. öld. Hefðin barst frá Danmörku þaðan sem fyrsta tréð var sennilega flutt árið 1850. Orðið „jólatré“ birtist fyrst á prenti 1877, þegar haldin var fyrsta opinbera jólatrjáaskemmtunin á Íslandi var haldin fyrir fátæk börn á sjúkrahúsinu í Reykjavík.* Á myndinni hér að ofan sést jólaskemmtun barna á Laufásborg, árið 1963. Mynd: Ingimundur Magnússon/Þjóðminjasafn Íslands.
Um svipað leyti fóru sumir landsmenn að smíða sér gervijólatré, enda engin grenitré á Íslandi. Stofn og greinar voru úr tré eða járni og tréð skreytt með litpappa, birkigreinum eða lyngi. Um aldamótin 1900 voru þessi tré orðin nokkuð algeng á íslenskum heimilum auk þess sem lifandi grenitré voru flutt inn fyrir efnafólk.
Eftir seinni heimsstyrjöld varð algengara að fólk hefði lifandi grenitré sem jólatré. Lengi vel var mest flutt inn af rauðgreni, en sjúkdómahætta varð til þess að innflutningur var að mestu bannaður. Norðmannsþin var byrjað að flytja inn 1952 og náði tegundin fljótlega miklum vinsældum. Núorðið eru nær öll innflutt jólatré norðmannsþinir, sem ræktaðir eru á ökrum í Danmörku.
Fyrstu grenitrén voru gróðursett á Íslandi um aldamótin 1900. Það var þó fyrst árið 1946 sem byrjað var að gróðursetja greni beinlínis til að framleiða jólatré. Fyrstu trén sem framleidd voru í þessu augnamiði voru höggvin og seld árið 1968, alls 292 tré. Þetta var einkum rauðgreni, sem lengst af var vinsælast. Sitkagreni, blágreni, broddgreni og fjallaþinur hafa einnig verið nýtt sem jólatré. Langmest selda tegund innlendra jólatrjáa undanfarin ár er þó stafafura.
Síðustu ár hafa landsmenn keypt um 50 þúsund lifandi jólatré fyrr hver jól. Aðeins fimmtungur þeirra – um tíu þúsund tré – hafa verið ræktuð hér á landi. Lifandi, íslensk jólatré eru þó vænsti kosturinn þegar horft er til umhverfisverndar og loftslagsmála, líkt og Umhverfisstofnun hefur bent á. Framleiðsla gervijólatrjáa er orkufrek og mengandi, enda eru þau oftast búin til úr plasti. Auk þess þarf að flytja þau um langan veg til Íslands. Lifandi jólatré sem eru flutt til Íslands eru svo oft ræktuð á ökrum og ýmiskonar eitur og efni notuð við ræktunina. Auk þess veldur flutningur þeirra yfir hafið talsverðri kolefnislosun.
Framan af var það aðallega Skógræk ríkisins sem seldi innlend jólatré en á síðstu árum hefur hlutur skógræktarfélaganna vaxið jafnt og þétt. Skógræktarfélag Reykjavíkur seldi í fyrra um 1.400 jólatré á Jólamarkaðnum í Heiðmörk.
Íslensk jólatré eru framleidd á umhverfisvænan hátt og yfirleitt nálægt þeim stað þar sem þau eru seld. Þá eru þau að mestu tekin úr skógræktarreitum samhliða grisjun skógana. Jólatrjáasala skógræktarfélaganna er auk þess hluti af fjáröflun þeirra og leiða tekjurnar því til aukinnar skógræktar. Sérfræðingar telja að vel væri hægt að anna innlendri eftirspurn eftir jólatrjám innan fárra ára, ef meira væri fjárfest í ræktun þeirra.**
Þessi umfjöllun er hluti af afmælisdagatali að tilefni þess að 70 ár eru frá opnun Heiðmerkur. Hægt er að fylgjast með afmælisdagatalinu á Instagram og Facebooksíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur.
*Umfjöllun þessi byggir að miklu leyti á riti Elsu Möller skógfræðings, Jólatrjáaræktun á Íslandi, frá árinu 2013.
**Sjá umfjöllun RÚV í desember 2018, „Gætu annað eftirspurn eftir lifandi jólatrjám“, þar sem rætt er við Brynjar Skúlason, skógerfðafræðing hjá Skógræktinni.
1 thoughts on “Jólatré: Frá litpappa og lyngi til sjálfsáðar stafafuru”
Comments are closed.