Kveikt var á Reykjavíkurjólatrénu í miðbæ Nuuk á Grænlandi í gær. Rúmlega þrjú þúsund manns, fimmtungur bæjarbúa, fylgdust með þegar jólasveinn í krana slökkvibíls tendraði ljósin með lýsandi marglitum töfrasprota við mikinn fögnuð viðstaddra barna.
Gert var ráð yfirr að S. Björn Blöndal, formaður borgarstjórnar, héldi ræðu á samkomunni og afhenti tréð. Hann komst ekki til Grænlands í tæka tíð sökum ófærðar. Skafti Jónsson, aðalræðismaður í Nuuk, hljóp í skarðið og flutti Nuuk búum jólakveðjur frá Reykvíkingum. Vinsælir skemmtikraftar tróðu upp og Barnakór Tónlistaskólans í Nuuk söng grænlensk og íslensk jólalög.
Grænlendingar kunna vel að meta þessa gjöf, sem Reykjavíkurborg færir þeim nú í annað sinn. Nú gnæfir jólatréð yfir aðaltorgi bæjarins, Arsiffik-torginu, en í fyrra var það í úthverfi. Stefnt er að því að festa í sessi jólatrjáahefð. Fyrirmyndin er Oslóartréð sem á sér orðið áratuga langa sögu í Reykjavík.
Í kveðjunni frá Reykvíkingum var vakin athygl í því, að nú væri Oslóartréð íslenskt, sem væri vitnisburður um að Reykjavík væri orðin sjálfbær í jólatrjáarækt. Þó væri það enn kallað Oslóartréð til að viðhalda hefðinni og minna á þá vináttu sem Norðmenn hefðu sýnt með gjöfinni í áranna rás.
Eimskip tók að sér flutning trésins til Nuuk og Air Iceland Connect færði börnunum gjafir, sælgætispoka og endurskinsmerki, í lok athafnarinnar á Arsiffik-torginu.
Skafti Jónsson tók myndirnar