Svona leit Esjan út klukkan 10 í morgun. Skýjabakkinn sem lá yfir toppnum horfinn og snjólínan þegar farin að lyftast. Þar er vinna hafin við göngustíginn mikla upp á Þverfellshorn. Og Heiðmörkin að fyllast af sumarfólki. Í fyrradag snjóaði reyndar lítillega í Heiðmörkinni, þann snjó tók fljótt upp og nú teljum við, og höfum þar líkindalögmálið með okkur, að þetta kalda vor sé að baki og framundan sætir, langir sumardagar, -eða eins og skáldið sagði:
BRÁÐUM KEMUR BETRI TÍÐ
Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga,
sæta lánga sumardaga.
Þá er gaman að trítla um tún og tölta á eingi,
einkum fyrir únga dreingi.
Folöldin þá fara á sprett og fuglinn sýngur,
og kýrnar leika við kvurn sinn fíngur.
(HKL 1922)