Fréttir

60 ár frá opnun Heiðmerkur

hpur_filp-sl_4_jl__09

Á þessu ári eru 60 árin liðin frá því Heiðmörk var opnuð almenningi og verður þess minnst með veglegum hætti þegar kemur fram á sumar.

Hér fylgir tilvitnun í Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1936, en þá teljum við að fyrst hafi verið  ritað um nauðsyn þess að friða það land sem seinna fékk nafnið Heiðmörk  og opna þar útivistarsvæði fyrir almenning eða ,,skemmtistað” eins og höfundur orðar það:

Frá ferðum mínum sumarið 1935  eftir Hákon Bjarnason

 ,,…Hinn 16. júní reið ég upp fyrir Elliðavatn til þess að skoða þær kjarrleifar, sem enn eru undir svonefndum Hjöllum og Löngubrekkum.  Þarna er töluvert af kjarri, en ekki er það mjög hávaxið.  Sumstaðar var það þó mannhæð og mjög þétt.  Að því er séð verður, hefur skógurinn tekið allmiklum framförum á síðustu árum, og mun það aðallega því að þakka, að fjárbeit hefur mikið lagst niður á næstu bæjum.  Kjarrið er mjög að breiðast út um hraunið, sem liggur fyrir austan brekkurnar, og er aðeins tímaspurning hvenær það verður mestallt skógi vaxið.  Annars er eftirtektarvert, að á kortum herforingjaráðsins er vart sýndur nokkur skógargróður á þessu svæði.  En frá Hjöllunum og alveg suður undir Kleifarvatn eru smá kjarrskikar og sumstaðar jafnvel allvíð skóglendi. 

Dag þann, er ég var þarna, var skógurinn nýsprunginn út, ljósgrænn á lit, en sólin hellti ylgeislum vorsins yfir landið.  Var einkennilega fagurt um að litast þarna efra. 

Reykjavíkur- og Hafnarfjarðarbær munu vera aðaleigendur  þessa landssvæðis, og væri vel, ef bæjarstjórnir þessara bæja sæu sér fært að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að vernda þessar skógaleifar, og reyna að koma þeim á legg.  Væri mikill fengur fyrir íbúa bæjanna að geta skroppið um helgar í fagurt skóglendi án þess að þurfa að verja til þess of miklum tíma og peningum. 

Í sambandi við þetta má benda á, að þá er skógurinn við Vagli í Fnjóskárdal var girtur, var mikið af skóglendinu lágt og lélegt kjarr, engu betra en þetta, sem nú er undir Hjöllunum, en nú er allt þetta kjarr orðið að vænsta skóglendi.  Og Vaglaskógur er nú jafn fjölsóttur skemmtistaður af Akureyrarbúum og Þingvellir eru af Reykvíkingum…..“

Hákon Bjarnason tók sem kunnugt er við sem skógræktarstjóri af Agnari Kofoed-Hansen og má hér sjá merki þeirrar stefnu sem þeir báðir fylgdu; að friða skóglendi þau sem  höfðu lifað af margra alda átroðning og illa meðferð landsmanna.  Hákon gerðist líka mesti talsmaður innfluttra trjátegunda sem við höfum átt og skildi þar á milli þeirra Agnars. Leitaði Hákon mjög fyrirmynda frá Noregi og Danmörku í upphafi 20. aldar. Má með sanni segja að skýr merki um velheppnaðan innflutning trjáa sjáist í Heiðmörk dagsins í dag! Að einu leyti reyndist þó Hákon ekki sannspár í tilvitnuðum texta hér fyrir ofan, en það er í tilgátunni um samskonar birkiskóg undir Hjöllunum og í Vaglaskógi; birkið á Vöglum lifir í öðru umhverfi og erfðirnar eru ekki þær sömu og því eru skógarnir mjög ólíkt vaxnir.