Esjufréttir

160 kíló af keðjum og festingum borin upp Esjuna

Í sumar hefur verið unnið að því að bæta öryggi við Þverfellshorn í Esjunni. Fyrr í mánuðinum tók vaskur hópur sjálfboðaliða sig til og bar um 160 kíló af keðjum og festingum upp fjallið. Keðjurnar voru svo festar í klettana.

Skógræktarfélag Reykjavíkur fékk í vor styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta öryggi við Þverfellshorn og ljúka við tengileið neðar í hlíðum Esjunnar. Á Þverfellshorni er klettabelti og algengt að fólk fari eftir syllum í beltinu, þar sem mikið er af lausu grjóti. Með framkvæmdunum er reynt að beina umferð fólks um skilgreinda og vel hreinsaða leið. Þá hafa keðjur verið settar upp á hluta leiðarinnar.

Þverfellshorn er beint upp af bílastæðinu við Mógilsá og afar vinsælt að ganga upp Esjuna þar. Samkvæmt teljara við leiðina, fóru að meðtaltali 350 á Esjuna á hverjum degi, frá 1. janúar til 12. ágúst 2021 – alls um 70 þúsund manns, fyrstu sjö mánuði ársins.
Myndirnar tók Jón Haukur Steingrímsson, sem unnið hefur ómetanlegt starf við að bæta aðstöðu í Esjuhlíðum ásamt öðru áhugafólki um útivist. Nánar er fjallað um framkvæmdir sumarsins í Esjuhlíðum hér.
Á syllum í klettabeltinu er mikið af lausu grjóti sem getur skapað hættu. Unnið hefur verið að því að auka öryggi með því að beina umferð á hreinsaða leið og setja upp keðjur á hluta leiðarinnar. Mynd: Jón Haukur Steingrímsson.

Vaskur hópur fólks bar um 160 kíló af keðjum og festingum upp fjallið. Mynd: Jón Haukur Steingrímsson.