Yfir tvö hundruð tóku þátt í Heiðmerkurhlaupinu á laugardaginn var, í mildu haustveðri. Keppt var á Ríkishringnum, sem er 12 km langur, og Gula hringnum, sem er 4,7 km.
Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur fyrir hlaupinu í samvinnu við Náttúruhlaup og Fjallakofann. Heiðmerkurhlaupið var fyrst haldið 2020 í tilefni af því að 70 ára voru liðin frá því Heiðmörk var vígð. Í ár var efnt til hlaupsins í fjórða sinn.
Sigurvegarar á Ríkishringnum voru Stefán Pálsson, sem hljóp á 47 mínútum og 50 sekúndum, og Berglind Gunnarsdóttir, á 1:02:22. Í skemmtiskokkinu kom Ricardas Kanisauskas fyrstur í mark af körlum og Hjördís Þorsteinsdóttir fyrst kvenna. Úrslit í Heiðmerkurhlaupinu má lesa á timataka.net.
Veitt voru verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin. Í fyrstu verðlaun voru glæsilegir hlaupaskór frá Fjallakofanum. Í önnur voru gæða hlaupasokkar ásamt tröpputré frá Jólamarkaðinum í Heiðmörk. Og í þriðju verðlaun tröpputré frá Jólamarkaðinum í Heiðmörk.
Þá voru einnig veitt útdráttarverðlaun – hlaupaljós frá Fjallakofanum.
Eftir hlaupið var boðið upp á kakó og kaffi sem hitað hafði verið yfir eldi. Notaleg stemmning var í skóginum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.









