Fréttir

Vel heppnuð birkifræsöfnun

Skógræktarfélag Reykjavíkur í samstarfi við Landsátak í söfnun birkifræs efndi til birkifræsöfnunar í Heiðmörk á dögunum í einstaklega fallegu haustveðri. Viðburðurinn hófst á stuttu fræðsluerindi Kristins Þorsteinssonar í Smiðjunni þar sem farið var yfir söfnun birkifræja og tilgang og fyrirkomulag átaksins. Að því búnu var haldið út til að tína fræ en þessa stuttu kvöldstund söfnuðust 8 lítrar eða hátt í milljón fræ (sjá frétt hér). Börnin voru sérlega áhugasöm og gaman að fylgjast með hversu afkastamikil ung börn geta verið. Fræsöfnun er heilnæm og notaleg útivera sem öll fjölskyldan getur tekið þátt í. Frætínsluna má stunda fram eftir hausti, eða svo lengi sem að reklarnir hanga á trjánum.

Fræðast má um Landsátak í söfnun birkifræs á heimasíðunni www.birkiskogur.is en þar má nálgast margvíslegan fróðleik á aðgengilegu formi, svo sem myndbönd og minnispunkta. Það eru Skógræktin og Landgræðslan sem standa að landsátakinu sem miðar að því að auka útbreiðslu birkiskóga og birkikjarrs og þar með auka landgæði og efla jarðvegsauðlindina. Markmiðið er að þekja birkiskóglendis fari úr 1,5 prósentum landsins í 5 prósent fram til 2030.

 

Kristinn Þorsteinsson verkefnastjóri Landsátaksins sýnir börnum birkiplöntur.

Á þessu eina tré var svo mikið af fræi að fjöldi fólks gat tínt af því í góða stund.

Hægt er að tína beint í þar tilgerð söfnunabox sem finna má í öllum verslun Bónus og á bensínstöðvum Olís. Á sömu stöðum má skila fræi. Einnig er hægt að nota pappírs eða taupoka, en ekki plastpoka því þá geta fræin myglað.

Börn eru mjög áhugasöm um fræsöfnun og ótrúlega afkastamikil þá svo þau séu ekki há í loftinu.

Fræsöfnun er notaleg útivist sem stunda má vel fram eftir hausti.

Jóhannes Benediktsson formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur lét sig ekki vanta í fræsöfnunina.