Tré mánaðarins

Tré septembermánaðar

Dómnefnd Skógræktarfélagsins taldi að ekki yrði horft framhjá  okkar sígilda reynivið nú í september svo áberandi og glæsilegur sem hann er í borginni.  Tré mánaðarins er því reyniviður (Sorbus aucuparia) í garði  við Vorsabæ 15 í Árbæjarhverfi. Þar stendur hann stakur framanvið við húsið og bregður svip á hverfið, farinn að nálgast miðjan aldur ef að líkum lætur, hlaðinn berjum  og allur hinn kröftugasti. Hann er   9,55 metrar á hæð og ummálið  í eins metra hæð frá jörðu er 1,17 m. Þvermál krónu er um 6 m. Auður Sjöfn Tryggvadóttir og Pétur Vilhjálmsson byggðu Vorsabæ 15 árið 1967 og gróðursettu reyniviðinn líklega 1969 og var hann keyptur í Fossvogsstöðinni. Núverandi eigendur eru Ásta Guðmundsdóttir og Jan Inge Lekve. Ekki er vitað til að Vorsabæjarreynirinn hafi fengið sérstaka meðhöndlun utan venjulegrar umhirðu, hann er einfaldlega rétt tré á réttum stað.

Reyniviður hefur líklega vaxið í landinu frá því sögur hófust og kannski lengur.  Ef til vill fluttu  landnámsmenn  hann með sér frá Noregi enda talið til heilla  að rækta reyni við hús sitt. Reynikvistir sem taldir  eru töfra- eða verndargripir hafa fundist í gröfum frá járnöld.  Viðurinn er allharður og var til dæmis notaður
í skíði og stóla  í Noregi áður fyrr.

Frægasti reyniviður landsins óx á Möðrufelli í Eyjafirði. Hann var álitinn heilagur og hétu landsmenn á hann sér til heilla.  Sagt var að ,,almenningur hafi flykkst að tré þessu með gjöfum, ljósum og ýmiskonar þjónustu”.  Menn   hafi sett logandi kerti á allar greinar hans  á hverri jólanótt og ,,slokknuðu ekki hversu hvasst sem var”.  Reyniviðurinn  hlaut sömu örlög og Jón Arason biskup á Hólum; var höggvinn af siðskiftamönnum 1551.  Sverasti hluti stofnsins var síðan notaður sem höggstokkur  við aftökur  hjá  Klofasteinum í landi Möðrufells næstu  tvöhunduð árin.

Reyniviðurinn hefur lengi  verið vinsæll  og algengur  hér á landi, bæði heim við bæi og á víð og dreif í birkiskógum landsins, ekki síst á Vestfjörðum.  “Aucuparia” í latnesku heiti hans  þýðir ,,sá sem laðar að fugla” og er það réttnefni; skógarþrestir og starar hafa hann í hávegum á haustin þegar hin rauðu ber  eru fullþroskuð. Berin eru  römm en mildast eftir fyrstu frost. Eru þau notuð í salöt, sultur, hlaup og víngerð og voru jafnvel höfð til drýginda í brauðbakstri  áður fyrr. Þau eru rík af C-vítamíni og talin bráðholl. Sagt er að skógarþrestir verði venju fremur háværir og valtir á fótum  þegar líður á haustið og berin taka að gerjast. Hvað sem því líður  er alveg víst að fuglunum duga berin vel sem fitun fyrir veturinn og  langflug suður á bóginn. Með driti sínu sér svo fuglinn um að dreifa fræjum trésins vítt og breitt.

Klasi af þroskuðum reyniberjum minnir á hrogn og er það væntanlega ástæðan fyrir því að Norðmenn kalla reyniviðinn einmitt Rogn á sinni tungu. Berin eru fryst og nýtt í skreytingar og fleira, eins og áður segir, þó hér á landi sé ekki rík hefð fyrir slíku, hér hefur fuglinn  haft ákveðinn forgang í nýtingu berjanna og framboðið verið takmarkað.  Nú  haustið 2008 er svo komið að ofgnótt er af berjum í görðum borgarinnar eftir mjög  hlýtt sumar  og erfitt að
sjá að til sé svo stór skari af fuglum að geti á nokkrum vikum étið öll þau ber  sem  trén í borginni svigna undan.

Reyniviður hefur mælst um 15 metra hár hér á landi og verður oft  100 ára gamall. Auk þess að fjölga sér með fræjum myndar hann teinunga upp frá rótarhálsi og nær þannig að endurnýja sig. Hann er breytilegur í vaxtarlagi, berjalit  og haustlit á laufum  eftir því hvar hann vex á landinu  og einnig voru mismunandi  tré flutt  inn frá
Skandinaviu í töluverðum mæli á 20. öldinni.   Hann er sígilt tré í skógum, útivistarsvæðum og görðum, en hafa þarf hæð hans og fyrirferð í huga strax við gróðursetningu.

Þess má  geta fyrir þá sem eru áhugasamir um  reyniættkvíslina að

tr_sept_08__-1-í Grasagarði Reykjavíkur eru  fjölmargar nýjar tegundir af reyni  í
ræktun  og hafa Ingunn J. Óskarsdóttir og Dóra Jakobsdóttir umsjón
með því starfi. Er vel þess virði  að heimsækja Grasagarðinn og
skoða  þessar tegundir í trjásafninu;  tegundir eins og skrautreyni,
rósareyni, kasmírreyni og fjallareyni, svo eitthvað sé nefnt.
Fjölbreytnin er svo mikil  að allir ættu  að geta fundið  reyni við
sitt hæfi,  þá tegund sem best  hentar í hverjum  garði.