Tré mánaðarins

Tré Janúarmánaðar – Garðahlynur

Tré mánaðarins er garðahlynur (Acer pseudoplatanus) í garði við Bjarnarstíg 10.  Hæð hans   er 13,30 metrar, þvermál krónu um 10 m. og ummál stofns 1,40  m. í 1,50 m. hæð frá jörðu.  Tréð er óvenju beinvaxið af hlyn að vera og greinar tiltölulega stuttar og fíngerðar. Það fellir lauf frekar  snemma og er þannig betur aðlagað veðurfari hérlendis en gengur og gerist með hlyn. Það var líklega gróðursett  árið 1930 og  flutt inn frá Danmörku, eins og  algengt var á þeim tíma.

Hjónin Elísabet Helgadóttir og Bjarni Bjarnason, sem bæði voru  kennarar í Austurbæjarskólanum, byggðu húsið Bjarnarstíg 10 árið 1927.  Bjarni var mikill skógræktarmaður, sem ekki var algengt á þeim tíma. Eigandi hússins nú er sonur þeirra Sverrir Bjarnason píanókennari.

Náttúruleg heimkynni garðahlyns eru  í fjalllendi Evrópu frá Spáni í vestri og austur í Kákasusfjöll. Í Ölpunum vex hann upp í 2000 metra hæð yfir sjávarmáli.  Hann  hefur breiðst út norður eftir Evrópu allt til Tromsö í Noregi, en auk þess hefur hann verið fluttur  og gróðursettur víða um heim.  Þrífst allvel  á Hjaltlandseyjum og í Færeyjum.  Útbreiðslugeta hans er mikil, hann framleiðir mikið af fræi og þrífst vel í skugga á unga aldri og er það meðal annars  ástæðan fyrir því að sumstaðar eins og í Danmörku og Ástralíu hefur hann verið flokkaður  sem  ,,innflutt  ágeng  tegund” og orðið fyrir útrýmingarherferð stjórnvalda.

Króna garðahlynsins er yfirleitt regnhlífalöguð hér á landi. Börkurinn  grár og sléttur en verður hrufóttur með árunum og þykir mikið augnayndi. Blöðin handsepótt og frekar stór. Haustlitur gulur. Blóm gulgræn í hangandi klösum vinsæl meðal býflugna. Aldinið tvær hnotur með samvöxnum vængjum sem minna á þyrluspaða   þegar þær  svífa til jarðar, í miklum vindi geta fræin ferðast nokkur hundruð metra frá móðurtrénu.  Þolir mengun, salt og vind  þegar hann eldist en er viðkvæmur í uppeldi.  Hefur að mestu verið laus við sjúkdóma og önnur vanþrif hérlendis. Taldar eru allt að 150 tegundir af hlyni í  heiminum auk fjölmargra ræktunarafbrigða. Garðahlynurinn  hefur reynst best hér á  landi ásamt afbrigðinu purpurahlyn, en neðri hluti laufblaða hans er rauðfjólublár. Margar hlyntegundir  eru nú í tilraunaræktun  í Grasagarðinum í Laugardal.

Hlynurinn hefur mikið gildi í ræktun í görðum og opnum svæðum. Viður hans er ljós  og meðal annars notaður í parket, húsgögn  og hljóðfærasmíð, eins og fiðlur enda leiðir hann hljóð óvenju vel. Síróp er gert úr  vökva hlynsins og er það töluverður iðnaður í Norður-Ameríku, algengast er reyndar að tappa vökva af sykurhlyn (Acer saccharum). Hér á landi hafa tilraunir verið gerðar með framleiðslu síróps af hlyn, en nærtækara mun vera  að framleiða birkisíróp fyrst um sinn.

Hvergi á landinu er garðahlynurinn jafn algengur og í Reykjavík og verður hann meira áberandi í borgarlandslaginu með hverju árinu  sem líður.  Þekktasta tréð er  ráðhúshlynurinn  á horni Suðurgötu og Vonarstrætis gróðursettur 1918, annar  við hús Þorvaldar Thoroddsen Laufásvegi 5 frá 1888 og er  hann meðal  elstu trjáa borgarinnar. Þá eru mjög fallegir hlynir við Mímisveg, Guðrúnargötu og Rafstöðvarveg, svo fáeinir staðir séu nefndir.  Hann er greinilega  þess virði að rækta   áfram og helst þyrfti að leita markvisst að  kvæmum sem  eru betur aðlöguð  okkar mislynda veðurfari og kala minna. Hann nýtur sín almennt vel  á opnum svæðum og verður væntanlega notaður sem götutré í framtíðinni og í skjólbelti líkt og víða erlendis. Þar telst það líka kostur hve króna hans er umfangsmikil og kastar miklum kælandi skugga yfir hásumarið.  Hér var gerð tilraun fyrir nokkrum árum með að flytja inn sérræktaðan hlyn frá Svíþjóð og nota sem stásstré utan við  hús Orkuveitunnar á Bæjarhálsi og verður forvitnilegt að sjá hvernig honum reiðir af í framtíðinni. Flestir eru   stóru  hlynir borgarinnar rétt að slíta barnsskónum ef miðað er við þann 500 ára aldur sem hann nær við góð skilyrði suður í Evrópu.  Þess má geta til gamans að sverasti stofn garðahlyns sem vitað  er um er í þýsku Ölpunum í um 1000 metra hæð yfir sjó, ummál hans er 8,70 metrar.

tr_janar_09Garðahlynurinn  við Bjarnarstíg 10 sómir sér einstaklega vel og er af mörgum talinn glæsilegasta tré sinnar tegundar á landinu .  Enginn verður svikinn af að gera sér ferð um  Bjarnarstíginn,  sem liggur milli Njálsgötu  og Skólavörðustígs  og heilsa upp á  umræddan hlyn, hann  blasir við frá götunni og er  jafn eftirtektarverður að  sumri sem vetri.