Esjufréttir

Toyota styður skógrækt í Esjuhlíðum

toyotadagur_i_esju_7_sept_08_-minni

Toyota bílaumboðið styrkir sem kunnugt er skógrækt víða um land, meðal annars í Esjuhlíðum þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur stýrir framkvæmdum og uppbyggingu útivistarskógar í landi Mógilsár og Kollafjarðar. Sunnudaginn 7. september héldu starfsmenn Toyota sinn árlega Esjudag þar sem safnast var saman við grill og leiki á hinum skjólgóðu flötum við Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá.

Auk grills og leikja var gróðursett í Toyotareit upp með Kollafjarðará þar sem starfsmenn bílaumboðsins hafa lagt hönd á pllóg við að klæða Esjuna og undirhlíðar hennar samfelldum skógi. Skógræktarfélagið kann starfsmönnum Toyota bestu þakkir fyrir stuðninginn á liðnum árum og vonast til að sjá þá aftur að ári liðnu. Meðfylgjandi er mynd af starfsmanni Toyota ásamt fjölskyldu sinni að gróðursetja alaskaösp af klóninum ´Keisari´ í frjósama brekku við Kollafjarðará.