Á döfinni, Fréttir

Þyrluflug á Hólmsheiði: Skyndilausn sem ógnar miklum verðmætum

Í tengslum við umræðu um vaxandi ónæði af þyrluflugi á höfuðborgarsvæðinu hefur sú hugmynd verið sett fram að flytja ætti útsýnisflug úr Vatnsmýrinni á Hólmsheiði. Stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur varar við þessum hugmyndum sem leysa engan vanda heldur flytja hann einungis til innan svæðisins.

Tíðar þyrluferðir frá Hólmsheiði myndu valda verulegu ónæði fyrir íbúa á austursvæðum borgarinnar og gesti nærliggjandi útivistarsvæða. Friðlandið í Heiðmörk, útivistarsvæðin við Rauðavatn og allt um kring, njóta sívaxandi vinsælda. Gróður á svæðunum er í mikilli framför, þökk sé óeigingjörnu starfi fyrri kynslóða sem ræktuðu upp illa farið land, gagngert til þess að fólk geti þar notið friðs og endurnærst í náttúrunni. Gróðursældin, náttúran og skjólið eru ómetanleg fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu borgarbúa.

Viðvarandi hávaðamengun vegna þyrluflugs myndi spilla verulega ánægjunni af því að heimsækja þessar útivistarperlur og njóta náttúrunnar. Þá er hætt við að það ógni því mikla og fjölbreytta fuglalífi sem er í Heiðmörk.

Skógræktarfélag Reykjavíkur skorar á borgaryfirvöld að ráðast ekki í skyndilausnir þar sem miklum umhverfisverðmætum er fórnað án nokkurs sýnilegs ávinnings.