Fréttir

Skógrækt í Bláfjöllum

Trjáplöntur sem voru gróðursettar í Bláfjöllum síðasta haust, hafa flestar plumað sig nokkuð vel. Markmiðið er að græða svæðið upp að einhverju leyti, bæta undirlag fyrir skíðaiðkun og skapa betra skjól. Gróðursett var í yfir 400 metra hæð og því kemur skemmtilega á óvart hve vel trjáplönturnar virðast þrífast.

Skíðagöngufélagið Ullur stendur að gróðursetningunum í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur. Sótt var um trjáplöntur frá verkefninu Vorviður.

Sjálfboðaliðar Ullar settu svo niður víði, birki og furu, með aðstoð frá starfsmanni Skógræktarfélags Reykjavíkur.

„Lifun er ótrúlega góð“

„Lifun er ótrúlega góð í Bláfjöllum. Ljóst er að víðirinn er að spjara sig vel. Birkið 50% en furan virðist ekki vera hamingjusöm“ segir Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri félagsins. Hún var á ferð um svæðið í haust til að kanna líðan plantnanna eftir fyrsta árið. Plönturnar höfðu þá bæði þurft að þola vetrarhörkur sem voru óvenjumiklar síðasta sumar, og óvenju þurrt sumar — í yfir 400 metra hæð! Og allt þetta nýkomnar í jörðu.

Starfsmenn félagsins settu líka niður nokkur melgresisstrá með rótum í fyrra. Þau lifa góðu lífi, ári seinna. Vonandi mun melgresið dreifa úr sér. Melgresi hefur lengi verið notað í uppgræðslu. Meira melgresi myndi hjálpa til við að binda skafrenning og bæta allar aðstæður til skíðamennsku. Ef til vill snjórinn betur í melgresinu. Þá skaðar það ekki skíðin þótt skíðað sé yfir melgresið. Verra er að skíða yfir grjót. 

Gróðursetningarnar sýna að gróður getur vel þrifist í Bláfjöllum. Og það þótt umhverfið sé hrjóstrugt á að líta. Það er ótrúlegt til þess að hugsa hve mikið væri hægt að græða upp og bæta allar aðstæður á stöðum eins og í Bláfjöllum. Og það með einföldum aðgerðum eins og að dreifa melgresi og klippa niður víði og setja niður. 

Furan átti heldur erfiðara uppdráttar, þarna í 400 metra hæð yfir sjávarmáli. Plantan á myndinni þraukar þó enn. Mynd: Auður Kjartansdóttir.
Þessi grýtta hlíð gæti kannski gróið upp á næstu árum. Gústaf Jarl Viðarsson, starfsmaður félagsins, virðir fyrir sér svæðið. Mynd: Auður Kjartansdóttir.