Á döfinni

Skógarleikunum frestað

Skógarleikunum í Heiðmörk hefur verið frestað að sinni. Skógarleikarnir hafa notið mikilla vinsælda síðustu sumur og markað ákveðinn hápunkt sumarsins hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Vegna heimsfaraldurs COVID-19 er þó varhugavert að stefna miklum mannfjölda saman. Þótt útbreiðsla veirunnar sé ekki mikil sem stendur, kann það að breytast. Því er rétt að fara að öllu með gát.

Skógarleikarnir verða því ekki í sumar eins og verið hefur. Til greina kemur að halda þá í haust ef aðstæður breytast til hins betra. Það á þó eftir að koma í ljós.

Í ár liðin 70 ár frá því að Heiðmörk var formlega opnuð. Þótt ekkert verði af Skógarleikunum, gengst Skógræktarfélag Reykjavíkur fyrir nokkrum minni viðburðum í Heiðmörk í sumar. Meðal annars verður jóga- og hugleiðsludagur í Heiðmörk, fræðsluganga um hvernig hægt er að lesa í skóginn, fuglaskoðun og námskeið um skógarnytjar. Þá er haldið upp á 70 ára afmælið með sögudagatali um Heiðmörk á samfélagsmiðlum og á heidmork.is.