Fréttir

Norðmenn gefa „skileik“ útbúnað fyrir gönguskíðaleiki í Heiðmörk

Höfðingleg gjöf barst nýlega frá sendiráði Noregs á Íslandi – búnaður fyrir skileik. „Skileik“ er skemmtileg leið til að læra á gönguskíði gegnum þrautir og leiki. Börn frá leikskólaaldri og uppúr geta þannig kynnst gönguskíðum á aðgengilegan hátt auk þess sem skileik hentar vel til að læra jafnvægi og ná færni á skíðum.

 

Skileik er notaður jafnt á skíðasvæðum sem í almenningsgörðum í borgum og bæjum. Búnaðurinn sem er frá norska skíðasambandinu (NSF) er meðal annars tengingar, staurar og búnaður til að gera göng. Með þessu eru búnar til mismunandi brautir og þrautir svo sem svigbrautir, ójafnt undirlag, öldur, stökkpallar og göng.

 

Skileik er ætlað að gera gönguskíðaíþróttina sem skemmtilegasta fyrir börn með því að leyfa þeim að leika sér um leið og þau læra að ná jafnvægi og verða öruggari á skíðum. Það getur krafist ákveðinnar færni og úthalds til að það sé skemmtilegt að leggja af stað í lengri ferðir. Skileik getur því verið góð leið fyrir fjölskyldur til að læra á gönguskíði og njóta útiveru og hollrar hreyfingar.

 

Nokkrar hugmyndir að skileik má finna hér og myndband af skileik og ábendingar frá Skíðafélagi Noregs má finna hér. Enn sem komið er vitum við hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur ekki um neina góða þýðingu á „Skileik“. Tillögur eru vel þegnar á heidmork (hjá) heidmork.is.

Aud Lise Norheim, sendiherra Noregs: „Við höfum tekið eftir sívaxandi útivistaráhuga Íslendinga undanfarin ár, sérstaklega þegar kemur að gönguskíðum, og okkur finnst þetta mjög gaman. Með því að gefa Skógræktarfélagi Reykjavíkur svokallaðan „skileik“-búnað langar okkur til þess að bjóða krökkunum út í sporið í vetur í Heiðmörk. Gönguskíði er fjölskylduíþrótt og skógurinn í Heiðmörk er fjölskylduparadís.“

Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur segir gjöfina frábært framlag til þess að auka notkun svæðisins yfir veturinn fyrir fólk á öllum aldri. Enda fáir staðir betri til að vera úti, leika sér og drekka heitt kakó. Það sé gaman að læra af Norðmönnum um vetraríþróttir og útivist.

„Gönguskíði er vaxandi íþrótt á Íslandi. Við vonum að með þessari gjöf aukist þátttaka barna, þannig að íþróttin verði fjölskylduíþrótt líkt og í Noregi.“ Auður, sem hefur búið í Noregi, segir að það hafi verið gaman að sjá hvernig börn í Noregi fara sum á gönguskíði strax í leikskóla. „Við hlökkum til frekara samstarfs með skólum og leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Enda er gaman að vera í skóginum allt árið um kring.“ Segir Auður.

Stefnt er að því að vígja búnaðinn við fyrsta tækifæri. Vonandi verður hægt að halda hátíðlegan einhvers konar skíðadag barnanna þegar tækifæri gefst og mikill snjór er í Heiðmörk.

 

Skógræktarfélag Reykjavíkur þakkar Norðmönnum kærlega fyrir höfðinglega gjöf.

8 km hringur var gerður fyrir helgi í Heiðmörk. Fólk er beðið að fara varlega þar sem stór tré slútta yfir sporið, en þar getur sporið grunnt vegna snjóleysis.

Fólk á gönguskíðum í Heiðmörk. Mynd: Ullur