Fréttir

Lífmassi trjáa og starf Skógræktarfélagsins í Landanum

Rannsókn á lífmassa trjáa, viðarvinnsla í Heiðmörk og starf Skógræktarfélags Reykjavíkur var til umfjöllunar í Landanum á RÚV, á sunnudagskvöld.

Í innslaginu var fjallað um rannsókn á lífmassa trjáa, sem Skógræktin stendur fyrir. Markmið rannsóknarinnar er að bæta reiknilíkan sem segir til um lífmassa trjáa út frá hæð og þvermáli þeirra. Þannig er einnig hægt að reikna út hve mikill koltvísýringur er bundinn í trjánum og hve mikinn koltvísýring íslenskir skógar eru að binda.

Reiknilíkanið varð til fyrir um tuttugu árum. Síðan þá hafa íslenskir skógar vaxið mikið og núorðið hægt að mæla stærri tré en gert var um aldamótin. Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur hjá Skógræktinni, vildi því nota tækifærið og uppfæra reiknilíkanið. Afar misjafnt er hve hratt tré binda koltvísýring og hve mikill lífmassi er í trjám. Þetta veltur ekki bara á aldri og stærð trjáa heldur líka tegundum, kvæmum, jarðvegi, veðurskilyrðum og fleiru. Í Heiðmörk eru fjölmörg stór og stæðileg tré og var óskað eftir því við Skógræktarfélagið að fá að mæla nokkur þeirra. Trén voru felld, mæld og vigtuð og nokkur sneiðarsýni tekin, sem verða vigtuð bæði blaut og eftir þurrkun, í rannsóknarstöð Skógræktarinnar að Mógilsá.

Landinn fylgdist með fellingu trjánna og rannsóknarstarfinu. Um leið var fjallað um skógrækt og skóglendið í Heiðmörk. Þá var rætt um viðarvinnslu félagsins, loftslagsmál og starf Skógræktarfélagsins við Auði framkvæmdastjóra og Sævar, skógarvörð Heiðmerkur.

Myndina hér að ofan tók Auður af þeim Sævari og Guðmundi, við sitkagrenitré sem þeir eru nýbúnir að fella.