Á döfinni

Heiðmerkurhlaup og frætínsla. Viðburðir í Heiðmörk

Skógræktarfélag Reykjavíkur gengst fyrir fjölbreyttum viðburðum í Heiðmörk á næstunni.

Laugardaginn 26. september verður gengist fyrir frætínslu í Heiðmörk, undir leiðsögn Aðalsteins Sigurgeirssonar, skógfræðings og fagmálastjóra hjá Skógræktinni. Frjósemi trjánna í Heiðmörk er sérlega mikil í ár. Aðalsteinn ætlar að kenna gestum hvernig á að tína og meðhöndla fræ. Skógræktarfélag Reykjavíkur hvetur fólk til að koma og taka þátt í að safna fræjum fyrir skóga framtíðarinnar.

Laugardaginn 3. október, klukkan 11:00, verður fyrsta Heiðmerkurhlaupið ræst. Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur að hlaupinu í samstarfi við Náttúruhlaup, í tilefni 70 ára afmælis Heiðmerkur. Í boði verða þrjár vegalengdir: 3 km skemmtiskokk, 8 km hringur og 15 km hringur. Hlaupið hefst við Elliðavatnsbæ við Elliðavatn.

Því miður getur ekki orðið af viðburðinum „Skógarheilun í Heiðmörk“, sem til stóð að yrði 15. ágúst. Ástæðan er heimsfaraldur Covid-19. Viðburðurinn var hannaður áður en smitum fór að fjölga á ný á Íslandi og tveggja metra reglan tók aftur gildi. Í ljósi nýrra aðstæðna hefur verið ákveðið að aflýsa viðburðinum. Stefnt er að því að halda viðburðinn um leið og færi gefst eða skipuleggja hann út frá 2 metra reglunni.

 

Færslan var uppfærð 12. ágúst.