Fréttir

Grisjunarfréttir úr Heiðmörk

Blandskógur í Heiðmörk

Nú í byrjun árs hafa starfsmenn vinnuflokks Skógræktarfélags Reykjavíkur unnið að grisjun í tveimur mismunandi reitum. Annars vegar er hreinn Stafafurureitur sem bráðvantaði góða grisjun. Hins vegar hefur verið lokið grisjun á reit sem er blandskógur eins og þeir gerast bestir sem er um 0,3 ha að stærð. Reiturinn stendur nyrst á Hjallabrautinni hægra megin þegar ekið er til suðurs, beint upp af Myllulækjartjörn alveg við Hjallabrautina og sést því vel þegar ekið er eftir henni. Við grisjunina kom í ljós að í þessum reiti, sem er sennilega gróðursettur í kringum 1975, eru alls um 6 tegundir trjáa. Um er að ræða 4 megintegundir en þær eru Rússalerki, Sitkagreni, Rauðgreni og Stafafura. Einnig er þarna að finna nokkrar Bergfurur og eitt Reynitré.
Við grisjunina var reynt að skapa lerkinu sem best vaxtarrými en það er sérstaklega ljóselskt og þarf því mikið og gott rými eigi það að geta fullnýtt vaxtargetu sína. Einnig var lerkið lagað til með uppkvistun til að gera það beinna en sum trjánna voru ansi frjálsleg í vexti.
Á sama hátt var rauðgreninu gefið gott rými svo það nái sér á strik, en það er nokkuð lágvaxnara en sitkagrenið sem hefur vaxið þarna af miklum krafti sem og stafafuran.
Í dag stendur því eftir skemmtilegur blandskógur þar sem gott bil er á milli trjánna og ættu þau því að geta vaxið næstu 15 – 20 árin án frekari aðgerða. Sökum þess hversu rúmgott er í reitnum í dag er áætlunin sú að bæta enn um betur og flytja nokkrar tegundir af trjám inn í þennan reit  og jafnvel stækka hann lítillega til vesturs. Helstu tegundir sem áætlað er að bæta þarna inn eru fjallaþinur, fjallaþöll, reyniviður, birki, hlynur, alaskaösp og hugsanlega einhverjir berjarunnar.

img_2057

Hér má sjá starfsmann Skógræktarfélags Reykjavíkur, Jökul Guðmundsson, virða fyrir sér vesturkant reitsins áður en grisjun hófst. Eins og sjá má á þessari mynd þá ægir þarna samn tegundum, lengt til vinstri er lágvaxið rauðgreni, þá sitkagreni og eins má sjá glitta í bæði stafafur og lerki.

Núna strax eftir grisjun er reitirnir frekar ógreiðfærir til gangs því allar greinar og smærri trjábolir eru skilin eftir, en þau munu rotna niður á skömmum tíma og nýtast þá sem áburður fyrir eftirstandandi tré.

img_2065

Jökull virðir fyrir sér reitinn að lokinni grisjun. Eins og sést er þetta í dag fjölbreyttur opinn skógur með ýmsum tegundum af misjafnri stærð.

Vill Skógræktarfélag Reykjavíkur benda fólki sem áhuga hefur á skógrækt á að stoppa við í reitnum og virða hann fyrir sér. Þeir sem hafa áhuga geta rölt inn í reitinn og upplifa stemninguna sem myndast í þessum fallega stað. Beggja vegna við reitinn á Hjallabrautinni eru lítil stæði þar sem hægt er að leggja bíl og ganga inn á grisjunarsvæðið.

Með skógarkveðju
Ólafur Erling Ólafsson
Skógarvörður.